10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í C-deild Alþingistíðinda. (1627)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Fjármálaráðherra (Magn. J.):

Jeg vildi aðeins leyfa mjer að gera nokkrar athugasemdir við þetta frv., til þess að umr. þurfi ekki að snúast um óljós atriði í frv. viðvíkjandi gjaldeyrisráðstöfunum.

Umræðurnar hafa einungis snúist um heimild til innflutningshafta. Þetta er gamalt mál og hefir áður verið til meðferðar í þinginu, enda er það auðheyrt á umræðunum.

Jeg lít nú þannig á málið, að það sje gjaldeyrisráðstöfun, og þar sem frv. fer fram á takmörkun á innflutningi, tel jeg það aðalgjaldeyrisráðstöfun þess og þá aðalefni þess. Hin önnur ákvæði þess, sem lúta að gjaldeyrismálinu, tel jeg vera þar til vara.

Þegar er að ræða um ráðstöfun á innflutningnum, þá er þar að ræða um skipulag, eða takmörkun á skipulagi, en að því er snertir umsjón með gjaldeyrismálinu er þar að ræða um eitt skipulag eða annað. Nú hefir til þessa verið eitt skipulag á þessu máli, en þá er nú spurningin, hvort rjett muni að fela umsjón gjaldeyrisins þeirri nefnd, sem hjer hefir verið rætt um að stofna í þeim tilgangi. Mjer þætti nú eðlilegast, að þessi nefnd færi með þær gjaldeyrisráðstafanir, sem hjer er um að ræða, því að hún yrði að vera kunnug öllu gjaldeyrisástandinu í heild og hafa sem fylst yfirlit yfir það, og mundi þar sannast, að sárast er það, er í sjálfum liggur. Það virðist rjett, að sú nefnd, sem hefði með höndum innflutningsráðstafanir, ætti að vera sem kunnugust gjaldeyrisástandinu, hverra krafa og hverra tekna mætti vænta á hverjum tíma. Það er því ekki hægt að segja, að það sje óljóst, að slík nefnd geti haft umsjón með gjaldeyrinum, og er hjer aðeins að ræða um skipulagsráðstafanir í þá átt, að allar upplýsingar í þessu efni geti gengið sem greiðast og komið niður í sem rjettastan stað.

Það hefir einnig verið nefnt hjer í hv. deild, að það væri óljóst tekið fram í frv., að þessi nefnd gæti enn fremur, ef nauðsynlegt þætti, ráðstafað gjaldeyrinum. Þetta er ljóst, og sjest það best, ef menn hugsa sjer, að rísi upp „baisse spekulationir“ í íslenskri krónu, þannig, að boðin væri út íslensk króna „in blanco“, sem svo ætti að skila eftir mánuð eða hálfan mánuð. Það er auðsjeð, að þannig lagaður „organiseraður baisse“ á íslenskri krónu gæti eyðilagt gengi hennar. Slíkar ráðstafanir gætu þó aðeins komið til greina, ef brýn nauðsyn krefði, og þá þar sem verslað er með íslenska krónu, en það er einkum í Kaupmannahöfn, en þar er nauðsynin ekki sjerlega brýn, vegna þess, að kauphöllin þar hefir gert ráðstafanir móti „blanco-sölu“, og er ekki mikil hætta á, að þær ráðstafanir verði afnumdar fyrst um sinn.

Hinar aðrar ráðstafanir þessa frv., um gjaldeyrinn, eða vararáðstafanirnar, sem jeg nefndi þær áðan, eru skýrar, en jeg vil þó taka það fram um þær, að þar er aðeins að ræða um skipulag, um að leggja málið undir þessa nefnd. En ef það væri nú ekki lagt undir hana, mundi mestur hluti fjárins fara gegnum bankana, en þeir mundu þá best vita um, hvernig gjaldeyrisástandið væri.