11.04.1922
Neðri deild: 46. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í C-deild Alþingistíðinda. (1632)

80. mál, innflutningsbann og gjaldeyrisráðstöfun

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Jeg kvaddi mjer hljóðs í gærkveldi, til þess að svara stuttlega þeim háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) og háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Jeg skal ekki vera langorður, því að eins og jeg tók fram í gær, tel jeg langar ræður óþarfar og árangurslausar. Jeg gæti, eins og aðrir, haldið langar ræður um þetta mál, með almennum athugasemdum á við og dreif og slagorðum, en jeg tel það ástæðulaust. Það nær því ekki til mín, sem hjer hefir verið sagt um það, að menn væru langorðir, því að í ræðu minni í gær var jeg stuttorður, og var strax kominn inn í „medias res“.

Jeg veit að háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) er dauður, en „turniment“ okkar um skilning laganna frá 8. mars 1920 hefir farið fram með fullri „kurt og pí“, og jeg skal reyna að haga svo orðum mínum, að hann hafi ekki ástæðu til að tala, en þykist þó vita, að hæstv. forseti muni leyfa honum að gera athugasemd, ef hann æskir.

Háttv. þm. (M. G.) hjelt því fram, að þessi lög, frá 8. mars 1920, hefðu í praxis verið skilin svo, að þau næðu einnig til nauðsynjavöru. Þetta er rjett, þau voru skilin svo 1920–21, en samvinnunefnd viðskiftamála, sem hafði þessi lög til meðferðar í fyrra, gaf skýringar á þeim, sem ganga í þveröfuga átt við það, sem háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) sagði. Vil jeg nú, þessu til sönnunar, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkur atriði úr nál.:

„Það hefir orðið að samkomulagi að fallast á, að lögin 8. mars 1920 hjeldust í gildi fyrst um sinn, en með því skilorði, að „óþarfur varningur“ í þeim lögum merki einungis óþarfar vörutegundir, en alls ekki nauðsynlegar vörur“. (Alþt. 1921. A. bls. 540–541).

Það sjest á þessu, að þessi nefnd tekur það skýrt fram, að lögin nái aðeins til óþarfa. Jeg verð því að álíta það rjett, sem jeg hjelt fram í gær og háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) fjelst einnig á, að ef banna ætti innflutning nauðsynjavöru, væri þetta frv. nauðsynlegt til frekari heimilda. Enn fremur virtist mjer háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) óttast það, að ef þetta frv. væri samþ., væru lögin frá 8. mars 1920 í voða. Jeg get nú ekki sjeð, að hann hafi ástæðu til þess ótta, því að ef þetta frv. verður felt, gilda auðvitað hin eldri lög áfram. Það er að vísu satt, að það má nota þau miklu frekar en gert hefir verið, og mjer er kunnugt um, að fyrverandi stjórn hafði í hyggju að bæta við þær vörur, sem bannaðar væru, öðrum, sem nema munu 600.000 kr., en hætti við það eftir tillögum bankanna, en eftir þeim má ekki banna innflutning nauðsynlegra vörutegunda, þó birgðir sjeu til.

Þá hjelt þessi háttv. þm. (M. G.) því og fram, að bannaðar vörur mundu samtals nema 2–3 milj. króna. En jeg hafði áður talið, að þær mundu nema 1.100.000 kr., eftir verslunarskýrslum frá 1918. Jeg veit nú ekki með vissu um þetta, því að jeg hafði upplýsingar mínar frá Íslandsbanka, en taldi þó, að þær mundu rjettar. (M. G.: Málið var rannsakað í nefnd í fyrra). Jeg fer hjer aðeins eftir skýrslum bankans, og skal ekki þrátta um það, en jeg hygg, að þær skýrslur sjeu rjettar. Þá hjelt háttv. þm. (M. G.) enn fram, að hann sem haftamaður vildi, að taldar væru upp allar þær vörur, sem bannaðar væru með öllu, og sömuleiðis þær, sem bannaðar væru með skilyrðum, og ef það væri gert, gæti hann orðið með frv. Þetta getur háttv. þm. sýnt í verkinu enn þá með því að greiða atkv. með frv. til 2. umr. og gera þá þær brtt., sem honum líkar, enda þótt frv. tæki gerbreytingum við þær. Það hefir oft verið gert áður, og það er skemst á það að minnast, að háttv. þm. sjálfur kom fram með brtt., sem hefðu gerbreytt innihaldi frv., og taldi jeg þær brtt. til bóta. Sama getur hann enn gert. Og þessi leið væri vandaminst fyrir mig, eins og jeg hefi bæði tekið fram hjer og í viðskiftanefnd.

Þá hefi jeg ekki fleira að athuga við ræðu háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.).

Við ræðu háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefi jeg ekki margt að athuga. Hann var sammála mjer um það, að ef banna ætti nauðsynjavörur, þyrfti frekari heimild frá Alþingi. Aftur hjelt hann því fram, að umræður og undirbúningur frv. hefðu valdið því, að kaupmenn væru búnir að birgja sig að þeim vörum, sem líklegt væri að bannaðar yrðu, svo frv. væri þýðingarlítið. Það má nú vera, að svo sje, en hitt hafði jeg heyrt, að kaupmenn biðu einmitt eftir úrslitum þessa máls hjer í þinginu, til þess að sjá, hvað best mundi henta þeim um kaupin. Hvort sannara er, veit jeg ekki, en hvorttveggja er slæmt, því jeg skal játa það, að langur í undirbúningur á slíku máli sem þessu er óhæfur. Það á að fara fram í þinginu með allri leynd, líkt og tolllög, þannig að menn komi sjer saman um það bak við tjöldin, og gera það að lögum á svo stuttum tíma, að kaupmenn fengi ekki svigrúm til að byrgja sig að þeim vörum, sem banna ætti. En það er ekki mjer að kenna, þó ekki sje svo með það farið, og sennilega engum einum hv. deildarmanni.

Þá hjelt þessi hv. þm. (J. Þ.) því fram, að bannið mundi hafa þau áhrif, að vörur hækkuðu að mun í verði. Þetta þarf ekki að vera svo, því að eftir frv. á að hafa eftirlit með þessu. Það á að skipa nefnd, sem mundi þá ákveða verð varanna; get jeg því ekki sjeð annað en hægt sje að koma í veg fyrir þetta, en það mundi eins fara um þessi lög og önnur, að þau mundu verða til einkis gagns, ef þeim væri ekki framfylgt.

Þá spurði háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.), hvort það mundi þjóðráð að banna innflutning á nauðsynjavörum, ef ís legðist að landinu. Jeg sagði ekkert það, að ástæða væri til að fá þetta út úr orðum mínum, og jeg hefði fyrir margra hluta sakir síst grunað þennan háttv. þm. um það, að hann mundi snúa út úr orðum mínum eða annara. Jeg sagði, að menn mundu gera of mikið úr björtu hliðinni, einkum háttv. meiri hl. viðskiftanefndar. Því þótti mjer ástæða til að minna menn á, að önnur hlið væri til á horfunum, að hafísinn gæti komið nú, eins og oft áður, og vildi með því benda mönnum á það neyðarástand, sem þá mundi geta orðið í landinu. Það hafa allir ræðumenn hjer í hv. deild tekið það fram, að þeir teldu ástandið ekki sem ákjósanlegast nú, hvernig sem á málið er annars litið. En hvernig mundi það verða, ef hafísinn legðist nú að? Mundi þá ekki þörf á víðtækum ráðstöfunum, höftum og öðrum neyðarráðstöfunum? Jú vissulega. Jeg hygg að flestir sjeu mjer sammála um það, og þá væri gott að hafa heimildarlög sem þessi, bæði hvað höft og gjaldeyrisráðstafanir snertir.

Loks endaði sami háttv. þm. (J. Þ.) ræðu sína á sama hátt sem háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.), að stjórnin hefði næga heimild til haftaráðstafana í gildandi lögum, og rökstuddi það á rjettari grundvelli. Við þetta hefi jeg í rauninni ekkert að athuga, því það sýnir, að báðir þessir háttv. þm., eins og reyndar öll deildin, telja, að höft sjeu nauðsynleg, og að það sje sjálfsagt, að stjórnin hafi heimild til að beita þeim. Þetta má skoða sem ótvíræðan vilja þingsins, því enginn hefir farið fram á að afnema lögin 8. mars 1920.

Jeg get nú látið úttalað um þetta mál og býst ekki við að jeg muni frekar skifta mjer af því, sem fram kemur, úr því mótstöðumenn haftanna telja, að stjórnin hafi heimild til að grípa til sinna ráðstafana, þó að engin frekari ákvæði um innflutningshöft verði samþykt nú.