07.03.1922
Efri deild: 15. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (1717)

42. mál, landhelgisgæsla

Fjármálaráðherra (M. G.):

Hv. þm. Vestm. (K. E.) talaði um það, að til væri víðtæk heimild fyrir stjórnina til að auka strandgæsluna, en þó að svo sje, þá er ekkert fje til að nota hana. Það þýðir ekkert að ræða um það að sinni að taka að sjer strandvarnirnar.

En þar sem hv. þm. Vestm. (K. E.) fór að blanda Þór inn í, þá verð jeg að álíta, að það mundi aðeins verða lítið svæði, sem hann næði yfir, þar sem hann er ekki hraðskreiðari en hann er. Annars komst hv. þm. (K. E.) út fyrir efnið, þar sem hann fór að tala um gæslu veiðarfæra utan við landhelgi. Hann gerði dönsku varðskipunum rangt til, þar sem hann sagði, að þau kæmu aðeins endrum og sinnum til fiskistöðvanna, og botnvörpungar vissu jafnan, hvar það væri. Það er ekki nema örskammur tími síðan varðskipið sannaði hið gagnstæða á Vestfjörðum og tók 2 eða 3 togara. (K. E.: Það var kallað). Það er ekki rjett. Eins og hv. þm. Snæf. (H. St.) tók fram, þá þarf að hraða afgreiðslu þessa máls sem allra mest, og vona jeg, að það verði nú samþykt hjer.