25.04.1922
Efri deild: 52. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (1832)

88. mál, saga Alþingis

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg stend ekki upp af því, að jeg finni hvöt hjá mjer til að mæla með þessari till. eins og hún er hjer orðuð og var samþ. við fyrri umr. í deildinni, heldur af því, að jeg sá ekki, að neinn ætlaði að kveðja sjer hljóðs til að taka að sjer þetta fóstur. Kunni jeg ekki við, að till. þessi færi óumtöluð út úr deildinni.

Till. fer fram á að heimila stjórninni að láta rita sögu Alþingis frá upphafi til vorra daga, og að því verki sje lokið fyrir árið 1930. Samkvæmt þessari heimild er stjórninni líka heimilt að verja fje til þess eftir þörfum. Finst mjer einkar merkilegt, ef slík till. verður samþykt nú, rjett í lok þessa þings, sem ekki hefir sjeð sjer annað fært, vegna fjárhagserfiðleika, en bregðast þeim þjóðfjelagsskyldum sínum að halda uppi verklegum framkvæmdum í landinu. En hjer er gert ráð fyrir ótakmörkuðum fjáraustri.

Menn verða að gera sjer grein fyrir því, að rekja má söguna um þetta þúsund ára tímabil í allmiklu máli. Í raun og veru er verið að gera ráð fyrir að skrifa sögu landsins að miklu leyti. Það hefir nú verið viðurkent, að ekkert áhlaupaverk er að skrifa sögu landsins enn sem komið er; sumt er í þoku eða hulið, en miklu veldur það líka, að ýms heimildarrit eru enn þá óútgefin.

Nú er verið að gefa út Alþingisbækurnar, og munu þær í fyrsta lagi verða komnar út um 1930.

Jeg er ekki sögufróður, en það þykist jeg vita, að mikið vanti á, að þau heimildarrit, sem þarf til að skrifa sögu landsins, sjeu nú í höndum manna. Af þessari ástæðu get jeg ekki annað en litið svo á, að hjer sje verið gera ráð fyrir verki, sem kostar mikið, en yrði að litlu gagni. Lægi nær að flýta fyrir útgáfu Alþingisbókanna og annara heimildarrita.

Enginn veit neitt um, hve mikið verk þetta getur orðið. Býst jeg við, að hæstv. stjórn gæti engu um það svarað, þótt hún væri spurð að, hversu miklu fje þyrfti að eyða til verksins. Enginn getur gefið upplýsingar um, hvort kostnaðurinn verður 50 þús. eða 100 þús., eða jafnvel miklu meiri, og þó er ætlast til, að þingið rjett í lokin og í mesta flaustri fleygi þessu í stjórnina, án þess að málið sje hugsað eða rannsakað.

Sögufróður maður, sem jeg hefi talað um þetta við, gerði lauslega ráð fyrir, að verkið yrði 5 bindi. Þá koma spurningarnar: Hvað eiga þau að vera stór? Hvað kostar hvert? Hvað á að borga mönnunum, sem að þessu eiga að vinna? Og loksins, hvað marga menn þarf til að inna verkið af hendi? Mjer þætti ekki mikið, þótt jafnmarga þyrfti og dagarnir eru í vikunni. Engum einum manni er felandi slíkt verk. það verður að vera samvinnuverk, ef það á að vera skýrt og greinilegt, sem það sennilegast getur raunar ekki orðið.

Hvað prentun þessara 5 binda muni kosta, er helst hægt að hugsa sjer með því að líta á kostnað Alþingistíðindanna, en þó má gera ráð fyrir miklu dýrari pappír en í þeim. Og víst yrðu kaupendurnir að þessu mikla verki ekki fleiri en kaupendur Alþingistíðindanna. Yrði að selja þetta rit afaródýrt, svo að lítið sem ekkert hefðist upp úr sölunni.

Það mætti líka hugsa sjer að gefa út minna rit, svo sem eitt bindi, um sögu Alþingis. En jeg verð þó að efast um, að það verði að nokkru verulegu sögulegu gagni að fá smárit um þetta efni.

Menn geta einnig hugsað sjer þetta sem skrautútgáfu, prýdda myndum, en hvernig sem á það er litið, þá verður ekki mótmælt, að málið er lítið og flausturslega undirbúið. Skil jeg ekkert í, að hæstv. stjórn skuli vilja taka við slíku máli, sem er vita órannsakað.

Jeg lít svo á, að þetta sje í rauninni innanþingsmál. Væri því eðlilegast, að forsetar þingsins athuguðu það í sameiningu og færu með undirbúning málsins, einnig hvað kostnaðarhliðina snertir. Samkvæmt því hefi jeg, með leyfi hæstv. forseta, komið með brtt. ásamt hv. þm. Seyðf. (Jóh. Jóh.) og hv. þm. Snæf. (H. St.), er hljóðar svo:

(Sjá A. þskj. 290).

Leyfi jeg mjer að fara fram á, að þessi till. sje borin upp sem brtt. við aðaltill. Verð jeg að álíta heppilegast og best að fresta málinu algerlega til næsta þings. Er jeg ekkert hræddur um, að einhverjir góðir menn verði ekki til að koma með hana aftur þá inn á þingið, eftir því kappi, sem nú er á það lagt af ýmsum að ginna þingið til þess að samþykkja þetta. Er þá líka hægt að hafa undirbúning málsins ofurlítið meiri.

En verði það ekki gert, að fresta þessu máli til næsta þings, lít jeg svo á, að brtt. sje í heppilegra formi en aðaltill., og þess vegna taldi jeg vissara að koma fram með hana.

Afbrigði um skriflegu brtt. frá 2. þm. S.-M. (S. H. K.) (sjá þskj.,290) leyfð og samþ. án atkvgr.