06.04.1922
Neðri deild: 42. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (1848)

75. mál, rannsókn á máli Árna Theódórs Péturssonar

Einar Þorgilsson:

Jeg hefi litlu við að bæta það, sem hv. frsm. (B. J.) hefir sagt. Jeg er líka ekki svo kunnugur málinu sem skyldi. En jeg hefi lesið brjef þessa manns og ummæli og vottorð mætra manna, sem því fylgdu og jeg legg mikið upp úr. En mjer virðist svo, sem sumir þeir hv. þdm., sem talað hafa, sjeu eitthvað feimnir við að láta till. þessa ganga fram.

Jeg vil leggja áherslu á það, sem hv. frsm. (B. J.) benti á, að hliðstæðu máli þessu hefir hjer einmitt verið vísað til stjórnarinnar til rannsóknar, ekki síst þar sem aðili á ekki aðra leið færa í þessu máli en að leita til þings og stjórnar, og finnur sig misrjetti beittan. Og vafalaust er eitthvað bogið við þetta mál, þar sem þessi maður hefir verið kennari í mörg ár og hefir ágætra manna meðmæli mörg og góð.

Mjer virðist því alt mæla með því, að þetta mál fái að ganga þá leið, sem fjárveitinganefnd ætlar því, og upplýsist þar, svo fram geti komið allar rjettar ástæður, bæði með og móti.