06.04.1922
Neðri deild: 42. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í D-deild Alþingistíðinda. (1851)

75. mál, rannsókn á máli Árna Theódórs Péturssonar

Jakob Möller:

Jeg er algerlega sammála hv. fjárveitinganefnd og henni þakklátur fyrir, hvernig hún hefir tekið í þetta mál, þó að það sje ekki mjer skylt. Mjer finst, að það sje það minsta, sem þingið getur gert, úr því því hefir ekki sýnst málaleitunin með öllu ástæðulaus, að fela stjórninni að rannsaka málið, enda virðist það útlátalítið. Jeg verð að halda því fram, að mótbárurnar gegn því að skora á stjórnina að rannsaka þetta, sjeu harla veigalitlar. Ef um það væri að ræða að skora á stjórnina að rannsaka sínar eigin gerðir, þá teldi jeg vafasamt, að hún gæti sætt sig við slíkt. En þegar ný stjórn á að rannsaka gerðir fyrverandi stjórnar, þá sje jeg ekkert á móti því og hygg, að þar megi vænta hlutlausrar rannsóknar.

Út af orðum hæstv. forsætisráðherra (S. E.) vil jeg vekja athygli hans á því, að það er ekki rjett að bera þetta saman við venjulega veitingu embætta. Því hjer er í raun og veru um það að ræða, að maður hefir verið settur frá embætti. Hann hefir gegnt stöðu við þennan skóla mörg ár undanfarið. Og þó að slíkt sje ekki bein veiting, þá hefir þó maðurinn í raun rjettri verið settur frá. Því er það ekki rjett að afsaka fyrverandi stjórn með því, að hún hafi haft frjálsar hendur um veitingu embættisins. Og þegar hann svo hefir vottorð margra ágætra manna, þá sýnist full ástæða til að rannsaka þetta. Það mun að vísu rjett, að þessi maður hefir ekki rjett til skaðabóta. En einmitt vegna þess, að maðurinn er þannig rjettlaus, er því meiri ástæða til að rannsaka mál hans rækilega.