29.03.1922
Neðri deild: 35. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

1. mál, fjárlög 1923

Þorsteinn Jónsson:

Mig undrar það mjög, hvernig háttv þm. hafa sett sig á móti till. okkar þm. N.-M. um klæðaverksmiðju á Austurlandi. Mjer finst ekki laust við, að mótsögn sje í því, að hinir sömu menn, sem vilja heimila stjórninni að veita lán til verksmiðju á Reyðarfirði, skuli vera á móti því að orða það svo, að lánið verði veitt verksmiðju á Austurlandi. Það er nú að vísu búið að ræða þetta mál mikið hjer í deildinni, en vegna þess að flestir hafa talað á móti tillögu okkar þm. N.-M., þá vil jeg fara nokkrum orðum um málið. Það sem aðallega vakir fyrir okkur þm. N.-M., er að við viljum ekki rasa fyrir ráð fram um byggingu slíks fyrirtækis, sem hjer er um að ræða. Við viljum láta menn með sjerþekkingu rannsaka, hvar hentugast muni að reisa slíka verksmiðju, bæði hvað snertir kostnað við byggingu og þægindi til starfrækslu. Við erum alls ekki á móti því, að verksmiðjan verði sett á Reyðarfirði, ef það sannast með góðum og gildum rökum, að hún sje þar best niður komin. En við viljum ekki að þingið staðbindi hana þar, af þeirri ástæðu, að við álítum að það geti ekki sagt um, hvar hentugast sje að hafa hana.

Því hefir verið haldið fram af háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) og háttv. þm. A.-Sk. (Þorl.J.), að höfuðástæður fyrir því, að reisa eigi verksmiðjuna á Reyðarfirði, sjeu þær, að þar hafi safnast mest fje til fyrirtækisins. Jeg skal nú eigi rengja það, því að mjer er það ekki fullkunnugt. En hitt veit jeg, að víðar á Austurlandi er mikill áhugi fyrir máli þessu og margir vilja leggja fje til þessa fyrirtækis, og Seyðfirðingar munu eiga upptökin að hugmynd þessari.

Þá gat háttv. þm. A.-Sk. (Þorl.J.) þess, að við Reyðarfjörð væru betri samgöngur á sjó og landi en við nokkurn annan stað á Austurlandi. Þetta er að vísu satt, að því er snertir samgöngur á landi, en hitt veit háttv. þm. A.-Sk. ofurvel, að við Seyðisfjörð eru bestar skipasamgöngur.

Ef till. okkar þm. N.-M. verður samþykt, þá er jeg þess fullviss, að allir Austfirðingar muni vel við una, að rannsakað verði, hvar heppilegast sje að reisa ullarverksmiðju á Austurlandi. Það má vel vera, að rannsókn þessi leiddi í ljós, að það væri á Reyðarfirði, og er ekkert við það að athuga frá mínu sjónarmiði. En ef það kæmi hinsvegar í ljós, að annar staður væri heppilegri, t. d. Seyðisfjörður, þá er verra að vera búinn að binda lánsheimild til verksmiðjunnar við Reyðarfjörð. En ef þetta mál er þannig vaxið, að það þolir ekki slíka rannsókn, þá álít jeg að athugavert sje að samþykkja till. hv. 1. þm. S.-M., en fella tillögu okkar þm. N.-M.