24.02.1922
Neðri deild: 8. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (1897)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Magnús Kristjánsson:

Það er líklega kunnugt öllum hv. þdm., hver mín skoðun var á þessu máli á síðasta þingi. Sú skoðun hefir ekki breyst síðan; ef nokkuð er, þá hefir hún heldur styrkst. Þá voru fremur fáir á mínu máli, en nú hygg jeg, að mjer sje óhætt að fullyrða, að nú sjeu miklu fleiri, sem þá skoðun hafa, og það líklega meiri hluti landsbúa. Jeg tel því sjálfsagt að skipa nefndina og vona, að árangur verði af starfi hennar.

Þá vildi jeg gera nokkrar athugasemdir út af ræðum tveggja hv. þm., þeirra þm. Dala. (B. J.) og 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Virtist mjer sumt það, er þeir ljetu sjer um munn fara, heldur af fljótfærni mælt og lítil rök fyrir.

Jeg sný mjer þá fyrst að hv. þm. Dala. (B. J.). Mjer skildist á honum, að hann teldi það einu leiðina, sem líkleg væri til bjargar, að taka stórlán á stórlán ofan. (B. J.: Hver sagði þetta?). Hv. þm. Dala. (B. J.) sagði það, en hann hefir ef til vill ekki vitað, hvað hann sagði. En hann ætti að vita, að lán verður að greiða aftur. Vitaskuld er það rjett, að auka þurfi framleiðsluna, en þar sem sami hv. þm. (B. J.) var jafnframt að tala um það, að eigi væri hægt að selja afurðir vorar, þá finst mjer þetta vera einkennileg hugsunarvilla. Það er sama sem að segja, að kasta beri stórfje í atvinnurekstur, sem ekki getur borið sig. (B. J.: Það er víst búið að skifta um þm. í Dölunum, og þetta eru orð nýja þm.!). Það er nú jafnan talið lítilmannlegt að ganga frá töluðum orðum, en ef hv. þm. Dala. (B. J.) hefir skift um skoðun síðan áðan, þá sýnir það þó, að honum er ekki alls varnað. En þetta var hugsanagangurinn í ræðu hans, og hugsanavilla var það. (B.J.: Við skulum taka vitnin, þau eru hjer. Forseti hringir). Þessi sami hv. þm. (B. J.) hjelt því líka fram, að íslensk króna mundi stíga og verða hærri en dönsk, ef vjer tækjum slík stórlán. En jeg hefi ekki mikla trú á þessu.

Þá er það hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.). Hann kvaðst mundu leggjast á móti öllum viðskiftahöftum. Mig furðaði nú ekkert á því, en mig furðaði á því, hvernig hann rökstuddi það. Hann sagði, að hagur þjóðarinnar hefði batnað svo mjög nú undanfarið, að ástæðulaust væri að gera nokkrar ráðstafanir. Við þetta er aðeins það að athuga, að reynslan sýnir alveg hið gagnstæða. Fjárhagsvandræðin eru einmitt nú sem allra verst. Þetta eru því ljeleg rök.

Þá var annað atriði. Hann sagði, að höftin yrðu til þess, að meira yrði keypt af bannvörunni en ella. Þetta er sama sem að segja, að þá væri mest keypt, þegar varan væri ekki fáanleg. Svona getur mönnum skotist, þótt skýrir sjeu, þegar málstaðurinn er hæpinn.

Enn fremur var eitt, sem mjer þótti einkennilegt í ræðu þessa sama hv. þm. (J. Þ.). Hann virtist halda því fram, að það væri oss hagur, ef íslensk króna fjelli. Þá erum vjer ekki eins illa staddir og margir virðast halda. Þá er ekki heldur ástæða til þess að vera að hugsa upp ráð eða brjótast í ýmsum ráðstöfunum til þess að bæta úr ástandinu, því að krónan hefir fallið, og þá berumst vjer fyrirhafnarlítið að hinu þráða takmarki. Eftir þessari kenningu ættu Þjóðverjar að vera sú þjóð álfunnar, sem hvað best væri stæð, því að gjaldmiðill þeirra hefir fallið svo mjög, sem kunnugt er. Væri ekki óskandi, að vjer yrðum fyrir sama láni?