24.02.1922
Neðri deild: 8. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í D-deild Alþingistíðinda. (1903)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Magnús Kristjánsson:

Jeg sje ekki að það þýði að fara öllu lengra inn á málið sjálft en þegar er gert. Stend jeg því aðallega upp vegna árása þeirra, er jeg hefi sætt vegna ræðu minnar.

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) gat engin rök fært gegn ummælum mínum, eins og ekki heldur var við að búast, en heldur, að það sje nóg að fullyrða, að eftirtekt mín sje sljó. En þótt svo væri, þá er því að svara, að ekki sje betra að eiga orðastað við þann þm., sem ekki vill muna stundinni lengur hvað hann segir. Að minsta kosti er það kunnugt um þennan hv. þm. (J. Þ.), að honum verður ekki mikið fyrir að eta ofan í sig meginið af því, sem hann hefir sagt, enda þótt skrifað sje jafnóðum og hann talar. Annars ætla jeg ekki að fara út í brigslyrði þm. (J. Þ.). En skjóta mætti því að honum, að þeir, sem búa í glerhúsi, ættu að gæta sín og hætta sjer ekki út í það, sem þeim er ófæra. (J. Þ.: Við sjáum til!). Já, við sjáum til, hvor hallara fæti stendur áður en lýkur.

Hann var enn, þessi hv. sami þm. (J. Þ.) að burðast við að fóðra þessa reginkórvillu sína, að enginn skaði væri að lágu gengi, en fórst það, sannast að segja, næsta ófimlega. Þó viðurkendi hann, að einstakir menn græddu á því, og þess vegna væri það gott. En jeg lít nú svo á, að taka eigi meira tillit til fjöldans og þess óhagnaðar, sem hann hefir af lága genginu, heldur en þó að einstaka menn velti sjer í gróðanum. Segi jeg svo skilið við þennan hv. þm. (J. Þ.).

Þá væri ástæða að svara hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), en jeg sleppi því þó og geymi það þangað til seinna, enda yrði það of langt að þessu sinni. Þó var eitt í ræðu hans, sem þegar verður að mótmæla. Hann sagði, að S. Í. S. hefði tekist ver að selja afurðir landsmanna heldur en kaupmönnum. Þessu leyfi jeg mjer að mótmæla sem algerlega ósönnu og órökstuddu. Þó að tregða yrði á í bili hjá Sambandinu um söluna, þá hefir það lagast. Enda mætti leiða mörg rök að því, að kaupmönnum gekk ekki betur, en þá yrði að fara svo langt inn á málið, að umr. lengdust til muna. En framboð afurða okkar á mörgum höndum og í smærri stíl eru vandræði og valda þjóðinni í heild sinni hinu mesta tjóni.

Á þessu vill till. ráða bót, og væri þá betur, að svo mætti takast.

Er svo rjett að eyða ekki fleiri orðum um þetta mál að sinni. Það mun nógur tími að gera það þegar nefndin leggur fram álit sitt.