25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (1926)

25. mál, tala ráðherra

Flm. (Jón Þorláksson):

Jeg þarf ekki miklu að bæta við ástæður þær, sem færðar eru fyrir till. í greinargerðinni, sem henni fylgir. Fyrst skal jeg taka það fram, að till. er fram borin öldungis án nokkurs tillits til stjórnarskifta, sem verða kynnu nú á þessu þingi. Rjettmæti hennar miðast ekki við neitt augnabliksástand, heldur er það skoðun okkar flutningsmanna, að tveggja manna stjórn sje nægileg og hæfileg handa landinu. Nú sem stendur er stjórnin skipuð tveim mönnum, og sitji hún áfram, þá teljum við ekki, að neinum þriðja manni ætti þar við að bæta, en verði ný stjórn skipuð, þá finst okkur, að í hana ætti að reyna að velja svo nýtilega menn, að þeir geti annað stjórnarstörfunum, þótt ekki sjeu fleiri en tveir.

Ástæðan fyrir till. er fyrst og fremst sú, að af henni leiðir beinan sparnað á fje til æðstu stjórnar landsins. Hún er orðin alt of kostnaðarsöm í hlutfalli við stærð og getu þjóðfjelagsins, eins og hv. meðflm. minn (P. O.) leiddi rök að með tölum í Sþ. nú fyrir fáum dögum, þegar rætt var um kosningu nefndar til íhugunar á fjárhag ríkissjóðs. Auk þessa beina sparnaðar á einum ráðherralaunum erum við líka sannfærðir um, að á annan hátt sparast landsfje við fækkun ráðherra. Það er sem sje óhjákvæmilegt, að hver ráðherra hafi nokkurt vald til að leyfa útgjöld úr ríkissjóði á sviði þeirra mála, sem hann veitir forstöðu, og það jafnvel umfram fjárveitingar, upp á væntanlegt samþykki Alþingis eftir á, samþykki, sem aldrei hefir verið synjað um til þessa. En það er auðsætt, að því fleiri menn sem það eru, sem hafa slíkt fjáreyðsluvald, því meira verður það líka notað. Þeir verða fleiri, sem geta útvegað sjer samþykki til fjárnotkunar úr ríkissjóði, ef um þrjá menn er að velja, sem til má leita, heldur en ef þeir menn eru einungis tveir, að öðru jöfnu. Sjerstaklega virðist það vera hentugt til gæslu á fjárhag ríkissjóðs, að stjórn atvinnu- og samgöngumálanna sje sem nátengdust stjórn fjármálanna, jafnvel helst í höndum sama manns, eins og er nú sem stendur.

Önnur höfuðástæðan fyrir því, að þessi till. er fram borin einmitt nú, er sú, að nú er sjerstaklega auðvelt að koma breytingunni á vegna þess, að ráðherrarnir eru einungis tveir, og þarf því engum manni að ryðja úr stöðu eða sessi til þess fá breytingunni framgengt. Ef ekki stæði svona á, er hætt við, að slík till. yrði skoðuð annaðhvort sem tilbekni við þann ráðherrann, sem líklegastur þætti til að rýma sessinn, eða þá að till. kæmi alls ekki til framkvæmda, þótt samþykt yrði. Af þessari ástæðu teljum við flm. ekki rjett að láta till. bíða, jafnvel þótt efni hennar gæti vel fallið undir verksvið nefndar þeirrar, sem kosin var í Sþ. fyrir fáum dögum.

Jeg hefi ekki heyrt mörgum eða miklum mótbárum hreyft gegn till. í alvöru, en væntanlega koma þær fram við umræðurnar hjer í deildinni, ef einhverjar eru til, sem frambærilegar þykja. Sjerstaklega skal jeg taka það fram, að jeg hefi ekki heyrt neinn mann bera brigður á það, að tveir menn, sem annars eru hæfir til ráðherrastarfs, hljóti að geta annað öllu verkinu, enda er fljótsjeð, að svo muni vera, þegar athugað er, að hjer eru einungis þrjár stjórnarskrifstofur, og ekki sjerlega fjölmenn nein þeirra, móts við það, sem gerist um stjórnarskrifstofur í öðrum löndum, þar sem meira er fjölmennið, og því fleiri mál, sem koma til afgreiðslu. En þess eru ekki dæmi í neinum nálægum löndum, að hverjum ráðherra sje ætlað að sjá yfir störf einnar skrifstofu einungis, heldur hefir hver ráðherra annarsstaðar undir sjer fjölda margar skrifstofur, jafnvel svo hundruðum skiftir í stóru löndunum, og mun þess vegna enginn halda því fram, að Íslendingi sje ofraun að stjórna tveim skrifstofum, ef hann á annað borð er fær um ráðherrastörf.

Aftur á móti hefi jeg heyrt þá ástæðu borna fram gegn því að hafa tvo ráðherra, að þá gætu atkvæði orðið jöfn á ráðherrafundum, og væri slíkt ekki gott fyrir afgreiðslu málanna. En þessi mótbára er mjög veigalítil. Stjórnarskráin (13. gr.) fyrirskipar, að ráðherrafundi skuli halda um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni, svo og þegar einhver ráðherranna óskar að bera þar upp mál. Fundunum stjórnar sá ráðherra, er konungur hefir kvatt til forsætis.

Önnur ákvæði eru ekki um þetta. stjórnarskráin gerir með öðrum orðum ekki ráð fyrir neinni atkvæðagreiðslu á ráðherrafundum. Það er því öldungis á valdi konungs að kveða á um, hvernig fara skuli að, ef tveir ráðherrar eru ósammála á ráðherrafundi. Mætti t. d. telja eðlilegt, að sá ráðherrann ráði, sem það mál heyrir undir, sem ágreiningurinn rís um, þó svo, að forsætisráðherra geti synjað um framkvæmd, ef um stefnumál er að ræða og hann vill ekki bera ábyrgð á framkvæmdinni. Náist ekki samkomulag eftir settum reglum milli tveggja ráðherrá, þá er ávalt opin sama leiðin, sem fara verður og farin verður, þótt ráðherrar sjeu þrír eða fleiri, en hún er sú, að sá, sem undir verður og ekki vill beygja sig, hann getur beiðst lausnar. Þetta atriði þarf því ekki að valda neinum vandkvæðum.

Heyrt hefi jeg einstaka menn ympra á því, að fækkun ráðherra kunni að fara í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Við flm. höfum athugað mjög vandlega, að ekkert ákvæði er í stjórnarskránni því til fyrirstöðu, að ráðherrum verði fækkað niður í tvo. En við treystum okkur eigi, meðal annars vegna margra ákvæða í stjórnarskránni, til að aðhyllast brtt. á þskj. 29, um að ráðherra verði einungis einn, en að öðru leyti ætla jeg að láta öll ummæli um þá brtt. bíða þar til jeg hefi heyrt ástæður hv. flm. fyrir henni.