18.03.1922
Sameinað þing: 7. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í D-deild Alþingistíðinda. (1943)

53. mál, stjórnarskráin

Bjarni Jónsson:

Jeg fæ ekki orða bundist í þessu máli. Mjer þótti gaman að heyra ræðu hv. frsm. (S. St.), og efast jeg ekki um, að hann hafi talað frá hjartanu, eins og hann er vanur. Hann ber hjer fram fullkomna traustsyfirlýsingu til allra stjórna, bæði fyrverandi, þeirrar, er nú situr að völdum, og þeirra, sem enn eru ófæddar. Svo ramt kveður að, að hann álítur það, að stjórninni sje langtum betur trúandi fyrir málum þjóðarinnar heldur en Alþingi. Fyrir ókomnar stjórnir hjer í landi ætti þetta að vera mikill gleðiboðskapur. En jeg vil benda þm. (S. St.) á það, að í þessu felst ekki góður dómur á þinginu. Jeg hefi ekki brjóstheilindi til að bera þá till. fram, að þingið sitji þjóðinni til skaða, og það mun vera viðurkent meðal annara þjóða, að þing sitji til gagns, en ekki til ógagns. Það er algengt, að lögð sje áhersla á það, hvað fjármál landsins sjeu í miklu öngþveiti, og getur hverjum sem vill fundist það eðlilegt. En þegar menn halda, að það verði til bjargar fjárhagnum að láta þingið ekki koma saman nema annaðhvert ár, þá lýsa menn því um leið yfir, að honum sje betur borgið í höndum stjórnar en þings. Jeg skal ekkert segja um það, hvort öll þau bjargráð, sem komið hafa frá sparnaðarnefndinni, mundu hafa verið lögð fram af stjórninni, en þó tel jeg það mjög óvíst. Jeg hefi litið og lít enn svo á, að það sje óheppilegt, að fjárhagstímabilið taki yfir tvö ár, því hvað góð sem stjórnin er, þá getur hún ekki látið sjer nægja að bíða með allar framkvæmdir eftir þinginu; verður því að taka til sinna ráða, eða að öðrum kosti að láta alt sitja fast. Þó að mikil trygging liggi í góðri stjórn, þá tel jeg hana þó tæplega færari en þingið til góðra ráða, og undarlegt mætti það heita, ef fámenn stjórn sæi betur en fjölment þing, eða kynni betur að fara með fje landsins.

Jeg vil hvorki gefa stjórninni trausts- nje vantraustsyfirlýsingu, en mun ávalt treysta þinginu betur en henni. Jeg lít á þingið eins og vörð, sem ætíð á að vera til taks. Jeg tel það vanrækslu á störfum hvers þm., sem aðeins vill hafa þingið annaðhvert ár. Sje voði fram undan, hverjum er þá skyldara að bjarga þjóðinni en fulltrúum hennar? Og jeg álít, að þeir geri það betur á þann hátt, að koma hjer saman, en að sitja heima og sinna gegningum. Jeg lít svo á, að þingin sjeu alment svo skipuð, að betra sje, að þau starfi, en sitji heima. Í till. þessari felst í raun rjettri það sama, sem mönnum væri skipað að gæta ekki skyldu sinnar nema annanhvern dag.

Jeg get vitanlega ekki ráðið því, hvort till. þessi verður samþykt eða ekki, en jeg vil þó ekki láta hana fara fram hjá mjer án þess að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til hennar.

Jeg fæ ekki betur sjeð en að till. sje þegar dauðadæmd, enda væri það óverðskulduð tiltrú, sem þjóðin ber til þessara kjörnu fulltrúa sinna, ef þeir lánuðu atkv. sitt til þess að kveða upp dauðadóm yfir sjálfum sjer. Þjóðin treysti þá þessum mönnum betur en þeir gera sjálfir, því að það er opinbert vantraust, er þingið lýsir á sjálfu sjer, ef það heldur stjórnina sjer færari um að sjá landinu farborða.

Auk þessa tel jeg það illa farið, ef byrja á nú á því að grauta í stjórnarskránni, eftir þessi 3–4 ár, sem hún hefir staðið. Af þeim breytingum leiddi óþarfaþras og ófrið í landinu, en nú er sannarlega þörf á óskiftum kröftum til umbóta og viðreisnar því, sem aflaga hefir farið á ófriðarárunum. Nýjar kosningar hvað eftir annað yrðu síst til sparnaðar, og fer hjer sem oftar, að þeim, sem heita vilja sparnaðarmenn, eru mislagðar hendur. En það er víst, að breyting þessi er stjórnarskrárbreyting, og hefir í för með sjer, sem allar slíkar breytingar, mikla fyrirhöfn og eyðslu á tíma og peningum.

Jeg mun svo ekki tala meira að sinni, því jeg nenni ekki að elta ólar við getsakir hv. frsm. (S. St.) í minn garð. Þeim þarf yfirleitt ekki að svara.