21.04.1922
Sameinað þing: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í D-deild Alþingistíðinda. (1998)

52. mál, hin íslenska fálkaorða

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Það hefir verið sagt, að þessar till. hafi snert barnslega strengi hjá mjer, og gefið í skyn, að jeg gerði mjer vonir um að fá eitthvað af þessum leikföngum.

Jeg sje eigi neitt það í því, er jeg sagði áðan um þetta mál, er gefið gæti hv. þm. Borgf. (P. O.) ástæðu til þessara hugleiðinga, og leiði það því hjá mjer.

Hitt snertir mína strengi, þegar sagt er í þessum sal, að þeir sjeu helst krossaðir, og hafi verið, sem helst hafi verið landinu til óþurftar, og níddur skórinn niður af ýmsum landsins bestu mönnum, lífs eða liðnum. Þessu vil jeg mótmæla. Og þar sem nánir ættingjar mínir hafa orðið fyrir þessu álasi, þá þykist jeg hafa rjett til að mótmæla því.

Viðvíkjandi því, sem mest hefir verið gert úr í þessu sambandi, sem sje kostnaðinum, þá get jeg fallist á, að vert sje að athuga hann. En nú hefir ekki hv. þingmönnum borið vel saman, er til útreikninganna kom. Flm. (Gunn. S.) telur kostnaðinn milli 10 og 20 þús., en annar hv. þm. (P. O.) taldi hann rúm 20 þús. Skal jeg ekki segja um, hvor fer með rjettara mál. En þess vil jeg geta og vekja athygli á, að nú er líklegt, að þegar sje búið að leggja fram langmestan hluta kostnaðarins. Má benda á, að tveir af þeim íslensku heiðursmönnum, sem hlotið hafa krossinn, eru þegar dánir; annar liggur í gröf sinni, hinn á líkbörunum, og heimtast því krossarnir aftur fljótlega, enda helst veittir rosknum mönnum.

Jeg mun hiklaust greiða atkv. mitt gegn dagskránni og till.