10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (202)

1. mál, fjárlög 1923

Karl Einarsson:

Jeg á hjer eina brtt., sem jeg vildi gera nokkra grein fyrir. Undanfarin ár hefir í fjárlögum verið fjárveiting til þess að hafa eftirlit með fiskiveiðum útlendinga. Og eitt skifti hefir sjávarútvegsnefnd með brjefi lagt það til að sendir væru bátar norður til að varna yfirgangi útlendinga við síldveiðar. Var þá sent eitt skip til mánaðardvalar, og í því skyni veittar 40 þús. krónur. Síðan hefir sú upphæð staðið óbreytt þar til nú, að hún er lækkuð niður í 30 þús. Er mjer eigi kunnugt um rök stjórnarinnar fyrir þessari ráðstöfun, nje heldur til hvers hún ætlar að nota þetta fje. Ef vel ætti að vera og nokkurt gagn af því að hljótast, þá ætti að hækka upphæðina að mun, en eigi fella hana niður. Á þessu sviði er svo margt, sem þarf að gera, en þó menn hefðu eigi annað en eftirlitið eitt í huga, þá er það sannast mála, að þessar 30 þús. krónur eru altof lítil upphæð.

Svæðið, sem um ræðir, nær frá Vestfjörðum og alla leið austur fyrir land. Á þessu svæði eru, eins og menn vita, stórir flóar og haldast útlend skip þar við og salta ólöglega. Yfirvöldin fá alment litla vitneskju um þetta. Til dæmis skal jeg geta þess, að einn settur lögreglustjóri á þessum stöðum hefir sagt mjer, að um haustið í september hafi sjer fyrst borist fregn um það, að útlend skip hafi legið inni á Jökulfjörðum og saltað þar ólöglega síld. Við þetta getur skip Dana vitanlega ekkert ráðið. Inni á fjörðum eru smáskip bæði ódýrari og mikið hentugri.

Jeg hefi hugsað mjer, ef þingið samþykti till., að stjórnin notaði því aðeins fjeð, að hún áliti, að það kæmi að tilætluðum notum.

Það hefir ekki litla þýðingu, að lögunum sje hlýtt í þessu efni. En með 30 þús. kr. er lítið hægt að gera. Það væri þegar munur, ef upphæðin væri 70 þús. kr., þó að varla væri það nægilegt, en jeg fullyrði, að þá mundi hafa fengist tollur af um helming þeirra 83 þús. tunna, sem saltaðar voru í landhelgi og fluttar út án þess að af þeim væri greitt. Jeg hefi heyrt um skip sem lá síðari hluta sumars inni á höfn, sem ekki er minni en það, að strandferðaskip koma þar við, og það tók við vörum og flutti að vörur án þess að greiða rjettmæt gjöld. Hlutaðeigandi yfirvöld fengu ekki vitneskju um þetta fyr en of seint, þegar skipið var sloppið.

Jeg heyrði það á háttv. frsm. (H. St.), að nefndin var í vandræðum með skrifstofufjeð, þó eigi sæi hún sjer fært að lækka það. Jeg er einn af lögreglustjórum þessa lands, og furðar mig stórlega, að skrifstofufje lögreglustjórans í Reykjavík er 8½ þús. kr. hærra en skrifstofufje allra annara lögreglustjóra til samans. Annaðhvort hlýtur lögreglustjórinn hjer að hafa óþarflega mikið skrifstofufje eða hinir óhæfilega lítið. Jeg skal ekki fara frekar út í þetta. Jeg er á sömu skoðun og háttv. nefnd, að breyting á þessu eigi að koma frá hæstv. stjórn.