24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í D-deild Alþingistíðinda. (2022)

90. mál, landsverslunin

Halldór Steinsson:

Jeg þarf að svara örfáum skeytum, sem beint hefir verið að mjer. Eru þá fyrst nokkur orð til hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Hann sagði, að jeg hefði talað af velvild mikilli um einstaka stjett, kaupmannastjettina. Jeg tek ekki orð hans nærri mjer. Jeg á þar góða vini, sem meðal annara stjetta, en jeg hefi aldrei sýnt mig á þingi sem sjerstaklega vinveittur þeirri stjett, öðrum stjettum fremur.

Þá sagði hann, að jeg hefði talið ástæðurnar fyrir landsversluninni horfnar, en jeg hefði engin rök fært að því. En þetta er ekki rjett. Jeg taldi 3 hugsanlegar ástæður fyrir henni, en sýndi fram á, að þær væru allar horfnar. Hefir hann ekki treyst sjer til að hrekja það.

Þá sagði hann, að jeg hefði sagt, að ekki væru öll kurl komin enn til grafar. Jeg hefði nú helst kosið að þurfa ekki að fara út í þetta aftur, en jeg get sagt, til þess að hugga hv. þm. Ak. (M. K.), að jeg átti þar ekki við landsverslunina eftir að hann tók við henni. En það var fyrst 1915, sem hugsað var um, að nauðsyn bæri til að endurskoða reikninga verslunarinnar, og menn kosnir til þess að reyna að kanna þetta kviksyndi. En þeir fundu engan botn. Það er því ekki ofmælt, að ekki munu öll kurl komin enn til grafar. Og þegar svo hjer við bætist, að verslunin hefir ekki greitt útsvar, notið góðs af gengismun og greitt aðeins 6% af lánum sínum, þá hefi jeg sannarlega ekki tekið of djúpt í árinni, þótt jeg teldi gróðann jafnvel „negativan“.

Þá sagði þessi hv. þm. (Sv. Ó.), að verslunin hefði varið miklu fje til sendimanna erlendis. Jeg hjelt, að best væri fyrir hann að minnast ekki á þetta, því um það hefir verið deilt, hvernig sumu af því fje hefir verið varið. En mjer þykir gaman að gera þá fyrirspurn til hv. þm. Ak. (M. K.), hversu mikið fje muni hafa farið til Belgíu- og Englandsfarar skrifstofustjórans. Það kann að vera, að hann hafi haft töluverð „prívat“-þægindi upp úr ferðinni, en hitt munu skiftar skoðanir um, hvort verslunin hefir að sama skapi haft hag af henni.

Þá sagði hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að verslunin væri gróði fyrir ríkissjóðinn, og taldi það einn af kostum hennar. En þar skilur okkur á. Ríkissjóður á ekki og má ekki reka gróðabrallsfyrirtæki; til þess er áhættan of mikil.

Sami hv. þm. (Sv. Ó.) sagði að landsverslunin skapaði betri viðskiftakjör. Jeg sagði, að hún gerði það að sumu leyti, en hitt stend jeg við, að ef hún hefði sömu aðstöðu og kaupmenn og nyti engra forrjettinda, þá væru ekki líkur til þess, að hún gæti veitt betri viðskiftakjör. Það eiga þeir eftir að sanna.

Þá kem jeg að síðasta atriðinu í ræðu þessa hv. þm. (Sv. Ó.), sem jeg hygg, að betur hefði verið ótalað. Hann sagði, að flestar þingmálafundargerðir, sem legðu til, að landsverslunin yrði lögð niður, væru úr kauptúnum, og þar af leiðandi samdar af kaupmönnum. Þetta er hörð aðdróttun til kjósenda og ekki lík jafnkjósendakærum manni sem hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.). Jeg get nú nefnt mörg kauptún, þar sem hv. kjósendur hans búa, svo sem Mjóafjörð, Djúpavog, Norðfjörð, Eskifjörð, Reyðarfjörð o. fl., og hygg jeg, að þeir kunni honum litla þökk fyrir, að hann ber þeim á brýn, að þeir sjeu þrællynd kaupmannaþý. En gott er, að þeir fá að heyra slík ummæli af vörum hans í þingsalnum.

Þá kem jeg að hæstv. atvrh. (Kl. J.). Hann vildi halda því fram, að landsverslunin hefði gert mikið gagn fyrstu árin. Jeg skal nú ekki þrátta mikið um það við hann; jeg hefi umsögn margra kaupsýslumanna um það, að á þeim tíma hafi ekki verið nein tregða á innflutningum til landsins. Hvor okkar hefir hjer á rjettu að standa getum við látið bíða seinni tíma.

Þá lagði hæstv. atvrh. (Kl. J.) þá merkingu í orðið „aðallega“ í tillögu minni hlutans, að með því væri átt við knýjandi nauðsyn, stjórnin mundi ekki nota heimildina nema knýjandi nauðsyn væri fyrir hendi. Það er auðvitað gott að fá þessa yfirlýsingu, en í orðið verður þó að leggja hina venjulegu merkingu. Og það opnar stjórninni víða gátt til þess að smeygja inn þúsundum tonna af hverju sem er, ef svo vill verkast.

Þá gat hæstv. atvrh. þess, að kaupmenn hefðu notið góðs af landsversluninni vegna þess, að hún hefði setið fyrir kaupmönnum með yfirfærslu. Þetta ber ekki vitni um mikla verslunarþekkingu. Jeg hygg, að kaupmenn hefðu heldur kosið sjálfir að nota yfirfærsluna en að hafa landsverslunina sem millilið. Þá man jeg ekki eftir fleiru, er jeg þarf að svara hæstv. atvrh. (Kl. J.).

Þá kem jeg að sjálfum höfuðpaurnum, hv. þm. Ak. (M. K.). Hann byrjaði með því að furða sig á, að hjer væri verið að leika gamanleik. Jeg bjóst nú sannast að segja heldur við því, að hann mundi kalla það sorgarleik. Það gildir að vísu einu, hvort hann nefnir þetta gamanleik eða sorgarleik; hann má vita það, að hann verður altaf aðalpersónan í leiknum. Hann kvað mína framsöguræðu hafa verið hvell og græskulaust gaman. Þessi ummæli eru nú gamlir kunningjar. Jeg átti einu sinni sæti í sömu deild og þessi hv. þm. (M. K.). Þá fjekk hann orð fyrir að vera skapstirður í meira lagi. Kom það þá eigi ósjaldan fyrir, er hann var kominn í þrot með öll skynsamleg rök, að skap hans ýfðist og hljóp með hann í gönur. Þá var það venjulega viðkvæðið hjá honum, að alt hjá mótstöðumönnunum væri hvellur og græskulaust gaman.

Hann óskaði þess að síðustu, að mjer mætti ganga vel að selja lyf mín og lífsins balsam. Jeg vildi nú fegins hugar svara í sömu mynt og óska honum góðs gengis með landsverslunina, ef jeg áliti, að ósk mín fengi nokkuð bætt úr því álappalega ástandi, sem hún nú er komin í. En jeg veit, að engar óskir eru svo heitar og ekkert lífsins balsam hefir svo mikinn lækniskraft í sjer fólginn, að það megni að reisa landsverslunina úr þeim dauðateygjum, sem hún nú er í, í áliti allra landsmanna.