21.04.1922
Sameinað þing: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í D-deild Alþingistíðinda. (2063)

66. mál, skipun embætta og sýsla

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Till. þessi er borin fram vegna sparnaðarnefndar. Það kom þráfaldlega fram, að till. hennar hefðu ekki getað komið að tilætluðum notum, þótt þeim hefði verið sint. Jeg virði þó samt sem áður viðleitni hennar. Það er erfitt fyrir hana að setja sig inn í flókin mál og málakerfi á skömmum tíma. Hins vegar tel jeg það óviðeigandi, að allir þeir stimplist sem ósparnaðarmenn, sem ekki hafa getað fylgt nefndinni að málum. Ýms óreiða á embættaskipun okkar og launakjörum stafa frá stríðsárunum og þeirri veltitíð, sem þá var. En það er hægra að stofna embætti en leggja niður, hægra að hækka laun en lækka.

Hitt tel jeg rjett, að hæstv. stjórn athugi þetta mál í heild sinni og láti sjerfróða menn aðstoða sig, bæði utan þings og innan. Hæstv. landsstjórn hefir lofað þessu, en jeg vil þó drepa á nokkur atriði, er hún má síst gleyma.

Hið fyrsta er það, að nauðsyn er að fækka starfsmönnum við ýmsar opinberar stofnanir. Störfin eru vísu aukin, en þó mun óþarflega margt manna við sumar af þessum stofnunum. T. d. gæti það vel komið til mála að sameina síma- og póststjórn landsins. Það er að vísu ilt að þurfa að gera slíkt, en fjárhagur ríkisins krefst þess, að sparað sje eftir megni. Annað er það, að fara verður mjög varlega í því, hvað viðvíkur fjölgun embætta. Ýms embætti hafa verið stofnuð að tilhlutun stjórnarinnar, en slíkt er varhugavert. Einn lið get jeg bent á, sem vel er þess verður, að rækilega sje athugaður, og er það aðskilnaður ríkis og kirkju.

Jeg æski ekki eftir, að starfsmenn ríkisins fái lítil laun; jeg vil aðeins draga úr skriffinskunni. Fáa menn, en góða, — það á að vera keppimarkið. Álít jeg svo, að ekki þurfi frekar um þetta að ræða.