25.04.1922
Neðri deild: 55. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í D-deild Alþingistíðinda. (2093)

87. mál, skólahússbygging á Eiðum

Fyrirspyrjandi (Björn Hallsson):

Jeg þakka hæstv. forsætisráðherra (S. E.) fyrir svarið, enda þótt jeg ekki geti sagt, að jeg sje alls kostar ánægður með það. Hann sagði, að ef ekki væri hægt að byggja samtímis á báðum stöðum, áliti hann, að meiri nauðsyn væri á að koma upp viðbótinni við Klepp.

Jeg skal engan dóm á það leggja, en skal benda á, að nauðsynin á skólahúsinu er mikil, og vafasamt, á hvoru er meiri nauðsyn.

En ef kostur er á að fá lán, finst mjer, að hæstv. stjórn geti vel staðið sig við að taka það, því að fjeð, sem átti að nota til skólabyggingar, hefir verið tekið til annars, og því ekki nema sanngjarnt, að það sje bætt upp.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta mál meira, en tek ummæli hæstv. stjórnar sem loforð um, að skólahúsið verði bygt jafnfljótt og viðbótin við Klepp.