12.04.1922
Efri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

1. mál, fjárlög 1923

Karl Einarsson:

Jeg get verið þakklátur háttv. fjvn. fyrir undirtektir hennar viðvíkjandi brtt. minni á þskj. 242 við 21. gr. 8. Jeg vildi aðeins taka það fram, að bæjarstjórn Vestmannaeyja mun eigi nota lánsheimildina á þessu ári, sakir margvíslegra örðugleika. Mun einnig fara svo næsta ár, þó heimildin standi áfram. Annars er nauðsynlegt að stækka rafstöðina eins fljótt og hægt er.

Háttv. frsm. nefndarinnar kvaðst eigi sjá sjer fært að styðja brtt. mína við 16. gr. 36, um hækkun á styrk til björgunarskipsins Þórs. Held jeg að meiri hluta nefndarinnar hafi þar verið mislagðar hendur.

Því er ekki unt að neita, að framleiðslan hefir aukist að mun fyrir starfsemi þessa skips. Það hefir verið tekið fram af háttv. þm., bæði í Nd. og Ed., að spara þyrfti alt sem unt væri, en þó hefir það jafnan verið tekið fram um leið, að alls eigi megi spara það, sem aukið geti framleiðsluna, og hjer er einmitt um slíkt fyrirtæki að ræða. Jeg ætla eigi nú að endurtaka það, sem jeg hefi áður sagt um starfsemi skipsins við að vernda báta og líf manna. Háttv. deildarmönnum mun vera það kunnugt. Það er því ábyrgðarhluti fyrir þá háttv. þm., sem kunna að valda því, að starfsemi skipsins leggist niður, því jeg býst við, að Vestmannaeyingar muni draga sig í hlje, er þeir sjá áhugaleysi þingsins á máli þessu.

Þá kem jeg að brtt. VI, um að styrkurinn til Leikfjelagsins verði sá sami og áður. Hv. frsm. tók það fram, að í Nd. hefði styrkurinn verið lækkaður vegna misskilnings þeirra manna, er báru það fram. Þeir bjuggust sem sje við, að Leikfjelagið starfaði ekki. En þetta hefir breyst; fjelagið starfar nú áfram, þótt starfsemi þess fjelli niður í fyrra. Fjelagið hefir starfað bæði vel og lengi að því að auka leikment í landinu. Enda hefir það hingað til notið viðurkenningar, jafnt þingmanna sem annara. Eins og gengi íslenskra peninga er nú, þá eru 4 þús. kr. eigi sjerlega há upphæð. Býst jeg því við, að þrátt fyrir það, þótt háttv. fjvn. kæmi með aðra brtt., að háttv. deild taki vel till. minni. Háttv. frsm. nefndarinnar sagði, að fjelagið mundi sætta sig við þessa upphæð, sem háttv. fjvn. leggur til að veitt verði. Það er að vísu rjett, en þó mun Leikfjelagið hafa vel þörf á hærri upphæð. Ýmislegt hefir gengið úr sjer af áhöldum fjelagsins við notkunarleysi í fyrra. Skal jeg svo eigi tala frekar um þetta, en vona að háttv. deild samþykki till.

Jeg á svo ekki aðrar brtt. nema með hv. 2. þm. Rang. (G. Guðf.), en jeg býst við að hann skýri það mál.