12.04.1922
Efri deild: 43. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

1. mál, fjárlög 1923

Guðmundur Björnson:

Jeg get ekki orða bundist um sumar brtt. á þskj. 242. Jeg verð að segja það, að mjer kom það á óvart, að farið væri að klípa af launum A. Fjeldsteds augnlæknis; er jeg þakklátur háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) fyrir ummæli hans um þessa tillögu við 2. umr. fjárlaganna hjer í þessari háttv. deild.

En jeg vil sjerstaklega biðja háttv. deildarmenn um að athuga það, sem háttv. 4. landsk. (G. G.) sagði áðan, og það er, að þessi maður var tekinn upp úr góðu embætti með eftirlaunarjetti og fenginn til þess að setjast hjer að. Vitanlega voru honum þá fengin laun, sem þá voru viðunandi, — en með öllu óviðunandi nú — því að síðan hafa laun annara lækna hækkað háum skrefum, og laun hans hefðu því að rjettu lagi átt að hækka að sama skapi. En þau hafa aldrei komist upp úr 2000 kr. Jeg hygg því, að meira ranglæti gæti tæplega átt sjer stað hjer á Alþingi en að fara að færa þessa þóknun niður úr 2000 kr. Jeg vænti því fastlega, að brtt. I á þskj. 242 verði samþykt.

Um ferðastyrkinn skal jeg taka það fram, að mjer er vel kunnugt um, hvað kostar að ferðast hjer, þar sem jeg hefi ferðast svo að segja út á hvern útkjálka þessa lands, og hefi jeg átt tal um þessar augnlækningaferðir við hann, og hefir hann sagt mjer, sem jeg veit að satt er, að hann hefir aldrei grætt á þeim, en iðulega tapað, því að ferðastyrkurinn hefir aldrei hrokkið fyrir þeim útgjöldum, sem hann hefir þurft að hafa. Hefir hann því aðallega haft það upp úr ferðunum, að hann hefir tapað þeim aukatekjum, sem hann hefði haft, ef hann hefði verið heima.

Það hefði því verið full ástæða til að hækka þennan ferðastyrk, og meira að segja hefði verið fult vit í því að tvöfalda hann, því að fólk þarf að hafa þessar ferðir. Það hefir oft verið kvartað um það við mig, að augnlæknirinn hafi ekki komið þangað og þangað, og einnig að hann hafi víða staðið of stutt við þar, sem hann hefir komið. Jeg mun því, hvernig sem um þessa till. fer, gera þá uppástungu til stjórnarinnar fyrir næsta þing, að þessi ferðastyrkur augnlæknis verði hækkaður að mun. Hjer er ekki að ræða um neinn meðalmann, þar sem er A. Fjeldsted, heldur mann, sem er einn af nýtustu læknum þessa lands.

Þá er brtt. á þskj. 242 frá háttv. 4. landsk. (G. G.), um að hækka utanfararstyrk forstöðukonu daufdumbraskólans. — Jeg verð eindregið að mæla með því, að kona þessi fái þennan styrk, því að hún hefir nú unnið hjer lengi, og mjer er óhætt að segja við sultarlaun. Er því ósanngjarnt að ætlast til þess, að hún fari að leggja fram fje úr eigin vasa, því að hún fer sannarlega í þarfir allrar þjóðarinnar.

Jeg get ekki nógsamlega vakið athygli manna á því, hversu áríðandi það er, að hinir mállausu aumingjar geti lært að tala og lesa af vörum manna. Vildi jeg því óska að einhver af þeim mállausu og heyrnarlausu aumingjum, sem hafa lært að tala, væri kominn hjer til að tala fyrir þessu máli, og hjer væri líka annar, sem aðeins hefði lært að tala á fingrunum. Trúi jeg þá ekki öðru en að menn kæmust við og skildu þann mikla mun, sem á því er að geta talað eða vera ótalandi. Jeg vona því fastlega, að tillaga þessi nái fram að ganga.

Þá er VI. brtt. á áðurgreindu þskj., sem jeg hlýt að minnast á, áður en jeg vík til sætis míns aftur, af því að jeg er kunnugri en margir aðrir Leikfjelagi Reykjavíkur. Við, sem erum orðnir gamlir Reykvíkingar, þekkjum þetta fjelag vel, og jeg hefi þekt starfsemi þess frá upphafi. Jeg veit, að margir halda, að leikendur hafi miklar tekjur af því að leika. En jeg get fullvissað alla um það, að svo er ekki, því að nær því hið eina, sem þeir hafa fengið, er erfiðið. Þetta starf er unnið mest í hjáverkum fyrir litla borgun. Það, sem Leikfjelagið hefir þurft að borga fyrir húsnæði, ljós og hita, er miklu meira en sá litli styrkur, sem það hefir notið. Að minka þennan styrk er því sama sem að drepa Leikfjelag Reykjavíkur.

Til þess að minnast á einstakt fólk, sem mest hefir lagt á sig í þágu leiklistarinnar, hefi jeg ekki tíma. En þó verð jeg að minnast á eina konu, sem sjerstaklega hefir skarað fram úr öðrum, og það er frú Stefanía Guðmundsdóttir.

Við gerum töluvert að því að styrkja skáld og listamenn, en ekki þá, sem hafa helgað sig leiklistinni. Jeg er sannfærður um, að engin kona hjer á landi hefir lagt meira á sig fyrir list sína en frú Stefanía. Að drepa Leikfjelag Reykjavíkur er því sama og að drepa listgáfu hennar. Og jeg er sannfærður um, að við höfum ekki efni á því að fara svo illa með merkustu og mestu listakonu þessa lands.

Jeg vona því, að brtt. um að Leikfjelagið fái 4000 kr. styrk verði samþykt.

Þá vildi jeg leggja liðsyrði till. háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) um 1200 kr. styrk til Þórarins Guðmundssonar, til þess að kenna utanbæjarmönnum fiðluleik. Því að það er satt, sem háttv. þm. sagði, að engin list er jafnuppörfandi í tómlætinu og fámenninu uppi í sveitunum eins og einmitt sönglistin.

Jeg get nú ímyndað mjer, að það líti ekki vel út, að jeg skuli vera að mæla með útgjöldum. En jeg vildi þá með nokkrum orðum reyna að bera blak af Alþingi. Jeg hefi heyrt, að allur sá sparnaður, sem talað er um hjer, væri ekkert nema uppgerð og sparnaðarhjalið væri ekki nema á vörunum. En jeg verð að segja það, að jeg hefi aldrei setið á jafnsparsömu þingi og einmitt nú.

Það er vitanlega ekki nýtt, að háttv. Ed. sje sparsöm. En jeg minnist þess ekki, að hin háttv. framsækna neðri deild hafi verið jafnsparsöm og nú. Og jeg hugsa, að sparnaðarhugsun þingsins hafi verið svo rík, að það hafi jafnvel á sumum sviðum gengið of langt í sparnaðinum.

Það hefir nú jafnvel heyrst, að þingmenn hefðu átt að byrja að spara á þann hátt, að sparnaðurinn gengi fyrst og fremst út yfir þá sjálfa. En jeg veit nú ekki betur en við höfum einmitt gert það. Því að t. d. hefir verið höggvið á tvennan hátt alltilfinnanlega í mitt embætti. Og jeg vil spyrja hv. form. fjárveitinganefndar (Jóh.Jóh.): Hefi jeg kvartað? (Jóh.Jóh.: Nei). Það var einmitt þetta ,,nei“, sem jeg vildi fá, því jeg veit, að allir eru sama hugar og jeg. Það dettur engum þm. í hug að kvarta, þó eitthvað sje sparað, sem kemur niður á honum sjálfum.

Jeg tel því ekkert afturkast frá sparnaðarstefnunni, þó að þessar tillögur verði samþyktar, sem jeg hefi minst á.

Þá vildi jeg að síðustu mæla með tillögunni um að hækka styrkinn til farskólahalds, því að jeg hefi á ferðum mínum um landið kynt mjer hina miklu erfiðleika og fjárþröng, sem farskólarnir hafa átt við að stríða, sem á engan hátt hafa komið harðast niður á börnunum í ónógri kenslu, heldur hefir hitt verið verra, að þeir hafa gengið út yfir heilsu þeirra, því að víða hefir verið kent í ljelegum þinghúsum og á heimilum, sem hafa verið alveg ófær til skólahalds. Einnig hefi jeg heyrt, að kent hafi verið á einum stað í helli.

Jeg lít því svo á, að fyrir löngu hefði átt að vera búið að hækka þennan styrk.