04.04.1922
Efri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

60. mál, einkaréttur til að selja allt silfurberg

0544Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Jeg er sammála háttv. frsm. (S. H. K.), að þetta mál er ekkert stórmál. Þetta frv. er ekki komið frá stjórninni, heldur háttv. fjvn., og hefi jeg ekki fyr heyrt, að það mundi stafa frá tillögum verkfræðingsins, er stjórnar námunni, en um það skal jeg ekkert segja.

Mjer er þetta ekkert kappsmál, en hygg þó, að frv. horfi heldur til bóta og sama heyrðist mjer á háttv. frsm. Hvað því viðvíkur, að gaman væri að sjá silfurbergsmola áður en miklu fje væri varið til fyrirtækisins, þá býst jeg við, að menn geti fengið að sjá silfurbergsmola í sumar. Eftir skeytum að dæma frá verkfræðingnum mun ekki hafa verið unnið heppilega að vinslunni undanfarin ár. Stendur svo á því, að Frakkar, sem höfðu námuna til 1914, er stríðið skall á, höfðu farið illa með hana og aðeins hugsað um að ná sem mestu af silfurbergi. Taldi verkfræðingurinn því rjettara að grafa göng inn að námunni heldur en að reyna að bora sig niður eins og áður hafði verið gert.

Mjer sjálfum er ekki unt að segja um þetta frá verkfræðilegu sjónarmiði hefi jeg hvorki þekkingu til þess nje heldur hefi jeg komið á staðinn. En verkfræðingurinn, sem stundað hefir nám í Bretlandi, ætti að vera fær um að standa fyrir námunni og viðhafa hentugustu aðferðirnar.

Nefndin leggur til, að stjórnin gæti alls sparnaðar hvað þetta snertir, og skal það fyllilega tekið til greina. Skal jeg og geta þess, að þær 70 þús. kr., sem veittar voru til þessa fyrirtækis í fyrra, voru ekki eyddar þegar verkfræðingurinn fór austur fyrir mánuði.

Finnist silfurberg að mun í þessari umgetnu námu, þá mun það verða fljótt að borga kostnað, því að það er í geypiverði. Af fyrsta flokks silfurbergi mun hvert kílógramm seljast á 500 kr.

Háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) var hræddur um, að þetta frv. væri gagnslaust, en jeg lít svo á, að það geti komið þegar í sumar að gagni. Sami háttv. þm. tók og fram þær ástæður, sem einnig komu gegn frv. í háttv. Nd., að öllum einkarjetti fylgdi skylda. Ríkið yrði því að taka að sjer að leita eftir silfurbergi víðar, til að geta haft það á boðstólum. Fyrst þessi mótbára kemur og hjer fram í háttv. Ed., finn jeg mig knúðan til að mótmæla henni. Jeg get alls ekki sjeð, að þessu fylgi svona mikil skylda til að leita að silfurbergi, og jeg verð sjerstaklega að mótmæla því, að þetta frv. beri að skilja svo, að það leggi ríkinu slíka almenna rannsóknarskyldu á herðar. Stjórnin gæti og leyft einstökum mönnum eða fjelögum að leita, og finst mjer ekki ólíklegt að stór „firmu“, eins og t. d. Zeiss í Jena, mundu vilja taka það að sjer, þar sem silfurberg er hvergi að fá nema á Íslandi og mikið eftirspurt. Jeg get heldur ekki sjeð, að leit að silfurbergi krefðist óhemjukostnaðar, því að staðirnir, sem um er að gera, eru sárafáir, líklega aðeins þrír, sem sje Hoffell, Akranáma og svo einn staður fyrir vestan, í Barðastrandarsýslu. Það er því aðeins spádómur, að einstakir menn mundu ekki vilja leggja í þann kostnað að leita að silfurbergi.

Jeg ætla ekki að halda uppi neinni vörn fyrir „monopol“, en þess vil jeg geta, að ýmslönd, svo sem Frakkland og Svíþjóð, láta ríkin hafa víðtæk einkarjettindi. Tel jeg að frv. geti vel orðið til gagns fyrir ríkið og vil eindregið leggja til, að það nái fram að ganga.