04.04.1922
Efri deild: 36. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

60. mál, einkaréttur til að selja allt silfurberg

Björn Kristjánsson:

Hæstv. atvrh. (Kl. J.) getur ekki skilið, að einkarjettinum fylgi skylda. Um það geta að vísu verið skiftar skoðanir, en þó munu flestir held jeg játa það, og liggur beinlínis í því, að það er ekki öllum frjálst.

Jeg tel óhugsandi, að nokkur einstakur maður vilji leita á sinn kostnað, ef hann ekki er frjáls með söluna á því silfurbergi, sem hann kann að finna, og veit því ekkert, hvað gott verð hann fær fyrir það eða hve tryggilega er um söluna búið.

Hæstv. atvrh. hjelt, að kostnaður við slíka leit yrði aldrei mikill, en það er alveg öfugt; hann hlýtur að verða gífurlegur, og staðirnir, sem silfurberg er að finna, geta verið fjöldamargir, því alstaðar má búast við því þar, sem kalk hefir verið og gufað upp við jarðhita. Getur það því verið í hverju basalt- og líparitfjalli.

Um einkasöluna ætla jeg ekki að fara að þræta við hæstv. atvrh. (Kl. J.), því að það er aldrei nema satt, að sum ríki, eins og t. d. Svíþjóð og Frakkland, hafa sett „monopol“ á einstöku vörutegundir. En um það ber aftur öllum saman, að þar sem einkasala er komin á þar sjeu vörurnar æfinlega verri og dýrari.