20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Jeg gaf ekki með framsögu minni tilefni til langra ræðuhalda um þetta mál, enda hafa umræðurnar mest snúist um bankamál alment.

Jeg mun að mestu leyti halda mjer við það mál, er hjer liggur fyrir, en þó verður ekki hjá því komist að víkja nokkrum orðum að skilningi sumra, einkum háttv. þm. Borgfirðinga, á lögmáli því, sem veldur, að fjárhagurinn er svo kominn, sem orðið er.

Mjer fanst hann halda því fram að það væri fyrst og fremst vegna seðlaútgáfunnar, en jeg lít öðruvísi á það efni. Seðlaútgáfan getur ekki haft áhrif á hvort efnahagurinn fer batnandi eða versnandi, heldur hitt, hvernig farið er með fjeð, hvort menn kunna að sníða sjer stakk eftir vexti. Því hefir verið haldið fram, að það þyrfti ekki annað en að draga inn alla bankaseðla, sem eru í veltu, þá væri alt gott og blessað; en það er ekki hugsað mál. Til þess að seðlaumferðin minki þarf innflutningurinn að minka að sama skapi eða meira.

Jeg álít mjög illa farið, ef þetta frv. yrði felt, því þar er fastákveðið, hve mikið af seðlum bankinn má mest hafa úti.

Jeg verð samt að taka skýrt fram, að jeg get ekki búist við að samþykkja frv. stjórnarinnar nema með brtt. nefndarinnar. Fyrir mjer er það aðalatriðið, að bundið sje, hversu mikið Íslandsbanki má gefa út, og jeg álít að upphæðin, 8 miljónir, sem tiltekin er, sje hæfileg, megi ekki vera lægri bankans vegna og ekki hærri landsins vegna, en ef nauðsyn krefur meiri seðlaútgáfu, verður þjóðbankinn að koma til skjalanna.

Jeg skal játa, að mjer þætti undarlegt, ef háttv. Alþingi færi að snúast svo um sjálft sig, að það færi að hverfa frá því, sem það ótvírætt ljet í ljós, er það kom síðast saman.

Þess vegna vill nefndin alvarlega biðja háttv. þdm. að athuga það, að frv. er því aðeins hæft til samþyktar, að brtt. nefndarinnar verði samþyktar, en hinsvegar geta stafað af því stórvandræði, ef frv. nær ekki fram að ganga.

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) gerði fyrirspurn til nefndarinnar um það, hvernig hún hefði hugsað sjer tryggingu „toppseðlanna“, sem landsstjórnin á að sjá um, að Landsbankinn gefi út. Jeg skal þá svara því, að nefndin hyggur það varla geta komið til, að meiri seðla þurfi að hafa úti en þessar 8 milj., sem Íslandsbanki má gefa út, að viðbættum þeim ¾ milj. kr., sem Landsbankinn hefir, og krónuseðlunum, sem ríkissjóður hefir gefið út og skoða má sem skiftimynt, en ekki venjulega seðlaútgáfu. Samþykt brtt. nefndarinnar veldur þá þeim einum mun, að Landsbankinn getur ekki dregið úr umferð þessa ¾ milj. kr., sem hann má gefa út, eins og hann hefir gert nú upp á síðkastið. Mun varla hægt að skylda hann til að hafa þá í umferð frekar en hann vill, nema bein lagafyrirmæli komi til.

En til þess að svara háttv. þm. (P. O.) alveg ákveðið, skal jeg taka það fram, að nefndin ætlast til, að seðlarnir verði málmtrygðir, eigi miður en lög mæla nú fyrir um seðla Íslandsbanka, ef svo fer, að meiri seðlaútgáfa verður nauðsynleg.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) sagði, að ráðist hefði verið á frv. stjórnarinnar. Nefndin hefir ekki gert það. (M. G.-. Nei). Mjer skildist svo sem sami háttv. þm. (M. G.) væri að hvetja til að samþykkja frv. óbreytt. Jeg held nú, að varlegra væri að fella ekki brtt.; þá mun nefndin öll verða á móti frv. og getur þá svo farið, að frv. falli. En þá yrði að taka það upp aftur í einhverri mynd, því að 30. júní þ. á. er fresturinn útrunninn.

Nefndin hefir viljað gæta hófs og alls ekki neyða neinum ókjörum upp á Íslandsbanka. Jeg fyrir mitt leyti hefi heldur ekki neina löngun til að veita honum óþörf fríðindi, en hitt þykir mjer ósanngjarnt að ætlast til að nokkur banki gefi út seðla og greiði af þeim fulla forvexti, því að jafnan fylgir útgáfunni bæði nokkur kostnaður og áhætta. Þess vegna getur nefndin fallist á 2. gr. frv., ef brtt. hennar við 1. gr. verður samþykt.

Jeg var ekki viðstaddur þegar háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) talaði og heyrði því ekki, hver rök hann færði gegn brtt. nefndarinnar. En líklegt þykir mjer, að hann hafi ekki verið búinn að athuga málið nægilega, ef hann vill heldur láta frv. vera óbreytt en samþykkja brtt.

Jeg mun svo ekki taka frekar til máls nema gerðar verði til mín beinar fyrirspurnir, því jeg hygg, að málið sje nú nægilega skýrt.