20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Pjetur Ottesen:

Mjer þótti vænt um að heyra það, að allir háttv. þingmenn, sem hafa talað, eru mjer sammála um það í aðalatriðunum, að starfræksla eða fyrirkomulag bankans hefir verið að ýmsu leyti óviðunandi á undanförnum árum. Vona jeg, að það, að jeg hefi hreyft þessu, verði til þess, að því verði kipt í lag.

Háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) sagði, að reglugerðinni hefði síðastl. sumar verið breytt, þannig að nú væri það áskilið, að bankaráðsmennirnir hefðu skyldu til að vera búsettir í Reykjavík, eða svo nálægt, að til þeirra væri jafnan hægt að ná. Ennfremur að kjörtímabilið hefði verið lengt upp í 12 ár. Þetta getur nú verið gott, einkum um búsetuskilyrðið, en kemur þó svo best að haldi, að flokkskenjar ráði eigi valinu á mönnunum, heldur verði það vandað sem best og þess gætt, að þeir sjeu ekki alt um of háðir bankanum. Ennfremur gat sami háttv. þm. þess í ræðu sinni, að rjett væri að vísu skýrt frá því hjá mjer, að stjórn Íslandsbanka hefði gengið að skilyrðum þeim, er þingið setti í fyrra, en þó eigi ánægð. En stjórn Íslandsbanka hefði gert það af því að hún sá, að hún gæti náð sjer niðri á annan hátt, nefnilega með því að halda vöxtunum háum.

Það getur náttúrlega vel verið, að bankastjórarnir hafi opinberað sinn innri mann um þetta fyrir háttv. 1. þm. Skagf. og að þarna sje þeim rjett lýst, en þetta sýnir ljóslega, hversu einráða þeir telja sig um alla stjórn bankans og með hvað dæmalausri lítilsvirðingu þeir líta á hina raunverulegu yfirstjórn bankans, bankaráðið.

Þá talaði sami háttv. þm. (M. G.) um, að hann áliti þetta góða verslun, að kaupa bankann til að lækka vextina fyrir þau fríðindi, sem frv. veitir bankanum, og því hefði hann flutt frv.

Um það atriði vil jeg segja það, að hjer virðist mjer háttv. 1. þm. Skagf. vera lakur kaupmaður fyrir hönd ríkissjóðs, sem honum er þó óneitanlega ant um, að vilja kaupa það dýru verði, sem í fylsta lagi er rjettmætt og sanngjarnt að krefjast endurgjaldslaust eða án sjerstakra fríðinda.

Þá vildi háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.) einnig halda því fram, að ekki mundi veita af að hafa heimild til frekari seðlaútgáfu vegna útgerðarinnar eða viðskiftanna yfirleitt. En þetta verð jeg nú að telja fremur ólíklegt og næstum óhugsandi, og get jeg í því efni vitnað til þess, sem jeg sagði áður um það mál. Þess er fyrst og fremst að gæta, að Íslandsbanki hefir rjett til þess að halda úti alt að 9 milj. kr. þar til 31. okt í haust. Til viðbótar því hefir svo Landsbankinn ¾ milj. kr. í seðlum, sem komast ættu í umferð. En auk þess eru líkur til, að fiskur seljist örara nú en áður. Bæði mun vera með minna móti fyrirliggjandi á markaðinum og svo er farið að þurka fiskinn í þurkhúsum, sem gerir það að verkum, að hann kemst fyr á markaðinn og selst fyr, og því greiðara sem gengur að koma afurðunum á markaðinn, því minni er seðlaþörfin.

Þá var háttv. þm. (M. G.) dálítið viðkvæmur fyrir stjórnarinnar hönd vegna þess, að jeg sagðist engri landsstjórn treysta til að fara með slíka heimild til aukinnar seðlaútgáfu. Telur hann, að stjórninni sje betur til þess trúandi en þinginu, en þar er jeg algerlega á annari skoðun. Það er svo sem vitanlegt, að þinginu getur yfirsjest í því efni, og það hefir flaskað á því, en það alt á að vera ærin ábending til þess að fara varlega. En mesta yfirsjón þingsins í þessu seðlamáli er í því fólgin að undanförnu að stjórninni var veitt heimild til þess á stríðsárunum að leyfa Íslandsbanka að gefa út seðla eftir því, sem viðskiftaþörfin krefði. Svo mundi það og fara enn, eða mig uggir það.

Háttv. þm. (M. G.) sagði, að þetta væri eina ráðið til að fá lækkaða vextina, að samþykkja þetta frv., en mjer er það alveg ráðgáta, hvernig á því stendur, að háttv. þingm. skuli halda þessu fram, þrátt fyrir skýlaus lagaákvæði um það, að bankaráðið getur hvenær sem er skipað bankanum að gera þetta.

Þá er það auðsjeð af nál. fjhn., að hún vill slá varnagla við því í nefndarálitinu, að ágreiningur geti risið milli bankans og stjórnarinnar út af greiðsluskyldum bankans til ríkissjóðs, eins og þetta er nú orðað í frv., þar sem hún segir:

„Þó vill nefndin taka það fram, að hún lítur svo á, að innieign í erlendum bönkum, umfram það sem lögákveðið er, geti ekki komið til greina sem seðlatrygging, þegar reiknað er gjaldið til ríkissjóðs“.

Af þessu er sjáanlegt, að nefndin hefir litið líkt og jeg á þetta mál, og talið ágreining ekki útilokaðan, eins og þetta er orðað í frv.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) þarf jeg litlu að svara.

Reikningar bankans sýna það, að bankinn hefir stórgrætt árlega öll stríðsárin og síðan stríðinu lauk, þó svo illa kunni að hafa verið á haldið, að tapið nemi meiru.

Viðvíkjandi ádeilu minni á bankaráðið vildi háttv. þm. Dalamanna (B. J.), að því er mjer skildist, hreinsa hendur sínar og koma sökinni yfir á fyrv. forsætisráðherra (J. M.). Hann er hjer ekki, og gefst því ekki kostur á að bera hönd fyrir höfuð sjer og skal jeg því ekki leggja neinn dóm á þetta.

Út af því, hvað sami háttv. þm. (B. J.) sagði, að kostað hefði bankann að yfirfæra tilskilda upphæð fyrir Landsbankann — mig minnir hann segði það hafa kostað 292 þúsundir, — þá er um það að segja, að þetta stafar frá eldri tíma. Yfirfærsluskyldu fyrir Landsbankann er nú af honum ljeti og ástæðan er sú, að bankinn hefir bundið sjer þyngri bagga en hann var fær um að bera, og er því að kenna, hvernig honum hefir verið stjórnað.

Þá sagði háttv. þm. Dala. (B. J.), að hjer þyrfti meira af seðlum en annarsstaðar, sökum þess hve langan tíma það tæki að koma vörunum á markaðinn.

Eins og jeg tók fram áður, eru verkunaraðferðir fiskjarins að breyta þessu, þar sem hann er nú sendur á markaðinn jafnóðum. Einnig hafa vöruskifti aukist í seinni tíð. Eru það einkum kaupfjelögin, sem hafa tekið þau upp. Þarf því minna af seðlum hjer en annarsstaðar, enda þó jafnmikið sje af þeim í umferð hjer með því magni sem núgildandi lög leyfa, samanborið við viðskiftaveltu okkar og annara Norðurlandaþjóða.

Þá árjettaði sami háttv. þm. (B. J.) þá skoðun háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.), að hann treysti stjórninni vel til að fara með þetta mál. — Kendi þar nokkuð annars álits en þegar sami háttv. þm. (B. J.) var á dögunum að færa rök á móti till. um það, að þing yrði haldið annaðhvort ár. Þá var ekki hægt að heyra annað á háttv. þingmanni en þingið þyrfti helst að sitja alt árið, til að girða fyrir einveldi stjórnarinnar.

Háttv. frsm. fjhn. sagði, að jeg hefði sagt að hinir fjárhagslegu erfiðleikar, sem við ættum nú við að stríða, stöfuðu eingöngu af of mikilli seðlaútgáfu. Ekki kvað jeg svo ríkt að. Jeg sagði, að hún hefði átt allverulegan þátt í fjárhagsvandræðunum, sem nú væru. Hann taldi seðlaútgáfuna ekki neitt hættulega, ef menn kynnu að fara með fje. — Já, ef menn kynnu það, en mjer virðist nú reynslan hafa synt hið gagnstæða. Þar í liggur hættan.

Jeg hefi ekkert á móti því, þótt Landsbankinn fái að gefa út þessa auknu seðla, ef þetta verður leyft á annað borð; jeg get því ekki sjeð, að brtt. nefndarinnar hvað þetta snertir spilli neinu. En mjer skildist á háttv. framsögumanni, að nefndin ætlaði með þessari breytingu að knýja fram þá seðla, sem Landsbankinn hefir gefið út, en nú um hríð eru horfnir úr umferð. Ef þetta væri meiningin, þyrfti að orða þetta skýrar, en annars held jeg að engin ný lagaákvæði þurfi um þetta, því stjórnin getur auðvitað, ef hún vill, komið þessu fram.

Jeg gerði lítilsháttar fyrirspurn, um það, hvernig gerð seðlanna ætti að vera; það getur haft dálitla þýðingu fyrir framkvæmdina. Mjer þætti vel, ef þessar umr. gætu orðið til þess, að hert yrði á eftirlitinu með bönkunum; þess er full þörf og þá einkum hvað Íslandsbanka snertir.

Jeg get svo lýst því yfir, að jeg treysti mjer ekki til að greiða frv. þessu atkv. eins og það er.