20.03.1922
Neðri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Gunnar Sigurðsson:

Ræða háttv. þm. Ak. (M. K.) var ástæðulaus að því er mig snerti og bygðist að öllu leyti á misskilningi; jeg sagði ekkert um brtt. hv. fjhn. Jeg lýsti aðeins grundvallarskoðun minni á málinu yfirleitt. Í fyrra var jeg á móti því að skylda bankann til að draga inn seðla á þessum tíma. Þrátt fyrir það, þótt mikið sje hjer í umferð af seðlum, sem sje 94 kr. á mann, þá er það þó minna en í nágrannalöndunum, t. d. í Danmörku eru 140 kr. á mann og í Noregi 160 kr. á mann. Þó útheimtir viðskiftavelta vor miklu meiri seðla í umferð. Þessi mikli inndráttur af seðlum, sem þingið ákvað í fyrra, hefir haft mikil og ill áhrif, enda hefir bæði háttv. fyrv. stjórn og núverandi stjórn sjeð og viðurkent þetta. Og sjálft þingið býst jeg við, að breyti algerlega um afstöðu nú, en mjer þykir hún ekki nógu ákveðin. Seðlar hafa áreiðanlega verið dregnir of ört inn á þessu ári.