15.04.1922
Efri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

19. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg hafði ekki búist við að taka hjer til máls, en þó ætla jeg að segja örfá orð til þess að taka ekki þegjandi við öllu því, sem að mjer er rjett.

Jeg þarf ekki að svara ræðu háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.); jeg hafði heyrt hana áður í nefndinni og þar höfðum við tveir, sem erum í meiri hlutanum, svarað því, sem svara þurfti. En jeg vildi víkja nokkrum orðum að háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.). Hann bar hjer fram þær aðdróttanir, sem hann hefir nú tönlast á þing eftir þing, að ef einhverjir vildu ekki fara að ráðum hans í einu og öllu, þá væri það fyrir áhrif utanþingsmanna. Þetta er vitanlega ekki hægt að hrekja með neinum sönnunum, en það er hægt að skýra satt og rjett frá engu að síður. Jeg hefi ekki talað við einn einasta utanþingsmann viðvíkjandi þessu máli og enginn slíkur hefir leitast við að hafa áhrif á mig. En það er einn maður, sem hefir gefið meiri hlutanum upplýsingar, og jeg veit ekki, hvort á að kalla hann utanþingsmann, þó ekki sje hann þm. Það er hæstv. fjrh. (Magn. J.) Nefndin fjekk hann til þess að mæta á fundi hjá sjer og þar upplýsti hann það, að sá möguleiki gæti legið fyrir, að nauðsyn yrði að fjölga seðlunum. Við í meiri hlutanum gátum ekki gengið algerlega fram hjá þessu, og þetta eru einu áhrifin frá utanþingsmönnum, ef menn vilja nefna hæstv. ráðh. svo.

Þá harmaði háttv. þm. (B. K.) það sáran, að öll hans mikla fræðsla í þessum málum kæmist aldrei nema að þinghúsdyrunum, þó að almenningur tæki henni fegins hendi. Það virðist undarlegt, hve háttv. þm. leggur mikið upp úr okkur, sem í meiri hlutanum erum, því að til okkar var aðallega talað. Það er eins og hann barmi sjer yfir því, að við tveir höfum ekki aðhylst ráð hans, og í augum hans vex það svo, að hann líkir okkur við alt þingið. En háttv. þm. gat varla búist við því, að jeg gleypti hverja setningu, sem hann segði af vísdómi sínum og speki. Það er seint að kenna gömlum hundi að sitja, og jeg hef alt til þessa reynt að komast ferða minna án aðstoðar háttv. þm. (B. K.). En jeg fæ ekki sjeð, að frv. fari svo mjög í bága við kenningar hans. Það er búið að margsýna fram á, að ef frv. hefði ekki komið fram, þá hefði stjórnin orðið að gefa út bráðabirgðalög, ef nauðsynlegt hefði orðið að auka seðlana, en ef sú nauðsyn verður ekki fyrir hendi á þeim tíma, sem frv. tekur til, þá sje jeg ekki, hver skaði er skeður. Háttv. þm. ætti þess vegna að reyna að beina áhrifum sínum frekar að stjórninni en meiri hlutanum, því að hún á að annast framkvæmd frv., ef til kemur.

Háttv. þm. bar fram nokkrar spurningar, en hann las þær svo títt af blaði sínu, að jeg átti erfitt með að fylgjast með, hvað þá heldur að skrifa þær niður. Auk þess spurði háttv. þm. frekar til þess að spyrja en fræðast, og er mjer ólagið að láta undan dutlungum þeirra, sem koma fram fullir sjálfsálits og ofmetnaðar. Þó vil jeg svara nokkrum þessara spurninga.

Háttv. þm. spurði, hver ætti að ákveða, hvort þörf væri að gefa út fleiri seðla eða ekki. Jeg skil ekki, að einn einasti maður hjer í deildinni geti verið í vafa um þetta, nema ef til vill þeir, sem hugsa meira um vit sitt á bankamálum en málin sjálf. Þessu er auðsvarað: Stjórnin á vitanlega að ákveða þetta. Öðrum er þar ekki til að dreifa. Það stendur „óhjákvæmilega“ í greininni, sem um er þráttað, og ætti ekki að vera erfitt að skilja það. Stjórnin á ekki að nota þessa heimild nema hún verði þvinguð til þess, en þá skiftir að mjer virðist litlu, hvort stjórnin fær þá heimild frá þessu þingi eða sækir hana í stjórnarskrána og gefur út bráðabirgðalög, en slíkar leiðir tel jeg altaf viðsjárverðar. Og betra er fyrir þingið að hafa gefið eitthvað í skyn um það, hvernig það vilji að þetta sje framkvæmt, því að ella kynni stjórnin að taka eitthvað upp hjá sjálfri sjer, sem þinginu líkaði ekki. Jeg segi þetta ekki til þeirrar stjórnar, sem nú situr, heldur alment.

Þá spurði háttv. þm., hvaða áhrif þetta hefði á gengið. Því get jeg ekki svarað til fulls, en jeg býst ekki við, að það verði hættulegt. Í fyrsta lagi er mjög líklegt, að aldrei komi til þessarar aukningar, þó að möguleikinn sje ekki útilokaður. Það er ekki ætlast til, að heimildin verði notuð nema það verði óumflýjanlegt. Á þetta hefir verið lögð svo mikil áhersla, að jeg vænti þess, að menn sjái, að ekki er um neinn seðlaaustur að ræða. Frv. er aðeins varaskeifa. Jeg held því ekki, að það geti haft nein ill áhrif á gengið, þó að frv. verði samþykt.

Háttv. þm. spurði, hvort þingið ætlaði að fara að ákveða vexti Íslandsbanka. Það hefir ekki gert það til þessa og getur ekki gert það. Ef svo væri, þá þyrfti ekki nú að semja við bankann um vaxtalækkun.

Jeg man ekki eftir fleiru í ræðu háttv. þm. nema hnútunum og höstugum orðum í garð meiri hlutans. Hann komst svo að orði, að við værum með þessu frv. að reka annan naglann í líkkistu þjóðarinnar, og þótti honum leitt að vera vottur þess. Hann þarf ekki að leggja á sig þá þjáningu að horfa á þær ógnir, sem hjer fara fram. Hann getur farið þegar hann vill, í dag, ef honum býður svo við að horfa, og getum við þá ekki annað en sagt honum að fara vel. En mín vegna er háttv. þm. óhætt að sitja lengur, því jeg sit ekki á næsta þingi. Háttv. þm. þarf ekki að horfa á mig reka fleiri nagla í líkkistu þjóðarinnar og getur verið rólegur þessvegna. Annars hefi jeg nú setið á 20 þingum, og hefir enginn sjeð það til mín fyr, að jeg ræki nagla í líkkistu þjóðarinnar, en háttv. þm. er skygnari eða glámskygnari en aðrir menn.

Jeg hefi ekki skrifað fleiri punkta úr ræðu háttv. þm., enda var hún engan vegin merkileg. Hún var haldin til þess að reyna að slá sig til riddara á okkur, sem í meiri hlutanum erum.