23.03.1922
Efri deild: 27. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

54. mál, fiskimat

Karl Einarsson:

Jeg stend upp aðeins til að lýsa því yfir fyrir hönd sjávarútvegsnefndar, að hún hefir athugað frv. á fjórum fundum og þar að auki aflað þeirra upplýsinga um málið, sem við er að búast að hægt sje að fá, og hafa nefndarmenn orðið ásáttir um það, að mæla með því, að hv. deild samþykki það óbreytt. Breytingar þær, er frumvarpið gerir á gildandi ákvæðum, eru mjög lítilvægar og aðallega 2, sem sje þessar: Í 1. gr. er tekið fram berum orðum, að fiskur til Portúgal skuli sæta sömu meðferð og fiskur til Spánar. Þetta mun nú hafa verið tilætlunin hingað til, en sagt að nú sje reynt að fara með ómetinn fisk til Portúgal og þaðan svo til Spánar. Orðalag frumvarpsins á að taka af þessi tvímæli, og er breytingin því til bóta.

Hin breytingin er aðeins í því innifalin, að fiskur, sem fluttur er til þessara landa (Spánar, Portúgals, Ítalíu og annara Miðjarðarhafslanda) um önnur lönd, skuli vera í sjerstökum umbúðum, og er sömuleiðis þessi breyting til bóta. Hinar breytingarnar eru aðeins afleiðing af þeim breytingum, bæði sem 1. gr. gerir á fiskimatsskyldu og lögin í fyrra gerðu í því efni, en láðist þá aðskrásetja í þau lög.