10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Frv. þetta er komið frá háttv. Ed. og flutti landbn. þeirrar deildar það í því formi, sem það er nú. Eins og getur um í nál. okkar eru einkanlega þrenskonar breytingar í frv. þessu á núgildandi lögum.

Fyrst er ákvæði um það, að hreppsnefnd hafi rjett til að leggja fult útsvar á bú o. s. frv. í þeim hreppi, sem fyrirtækið er rekið alt gjaldárið, eins og eigandi ætti lögheimili í hreppnum. En aftur á móti hefir hreppsnefndin þar, sem maðurinn á lögheimili, ekki rjett til þess að leggja útsvar á þá atvinnu eða eignir.

Það mun hafa komið fyrir, að lagt hefir verið á sömu eignina eða fyrirtækið í tveim hreppum, en ef þessi breyting verður samþykt, þá eru fengin skýr ákvæði um það, að ekki sje hægt að leggja á bú eða annað slíkt fyrirtæki þar, sem eigandi á lögheimili, ef það er rekið alt gjaldárið.

Þá eru í öðru lagi gerð skýrari ákvæðin um útsvarsrjett á laxveiði. Eins og menn vita, hefir orðið mikið þras og málaferli um þetta og úrskurðir eða dómar fallið þeim í vil, sem veiða á stöng sjer til skemtunar. Nefndin er samdóma Ed. í því, að nauðsyn beri til að gera hjer skýrari ákvæði um.

Laxveiðin er álitin og mun vera yfirleitt mjög arðsöm, og er því engin ástæða til að undanskilja hana útsvari, þótt svo sje kallað, að hún sje rekin sem „sport“ eða til skemtunar.

Þá er þriðja breytingin fólgin í því, að útsvarsskylda aðkomu útvegsmanna er miðuð við það, að þeir búi utan sýslu. Þeir útvegsmenn, sem búa í sama sýslufjelagi, eru lausir við útsvar, en á hina má leggja, sem utansýslu búa, þótt þeir eigi heima við sama fjörð eða flóa.

Að vísu er nefndinni ekki vel kunnugt, hve víðtæk áhrif þessi breyting getur haft. Á Austurlandi, þar sem jeg þekki best til, held jeg að þessi breyting hafi engin áhrif. Öðru máli getur verið að gegna um Faxaflóa og ef til vill Breiðafjörð.

Jeg sje, að háttv. þm. Barð. (H. K.) hefir komið með brtt. um, að þetta sje fært í gamla horfið. Fjörður og flói verði sett inn. Skal jeg lofa honum að mæla fyrir þeirri till. áður en jeg segi meira um þetta mál.

Þá vil jeg minnast á brtt. á þskj. 225 frá háttv. þm. Skagf. (M. G. og J. S.). Þar eru vakin upp aftur þau ákvæði, sem 2. þm. Skagf. (J. S.) flutti hjer í fyrra um slægjuafnotin og mest reis deilan millum hans og háttv. þm. Borgf. (P. O.). Nefndin hefir nú að vísu ekki getað borið sig saman um þetta atriði, en mjer virðist, að ef þessi brtt. verði samþykt, þá verði ósköp lítið úr ákvæðunum, sem samþykt voru 1919, að leggja megi á slægjuafnot. Það er ekki hægt að neita því, að kringum suma kaupstaði, og einkum kringum Reykjavík, eru jarðirnar rúnar að flestum gæðum og alt flutt í bæina. Og sjerstaklega er það tilfinnanlegt, þegar meiri hluti heyskaparins er fluttur burtu. Þá eru plokkuð notadrýgstu gæðin af jörðunum. Þá hverfur líka áhöfnin af jörðunum að mestu leyti og þá hefir hreppsnefndin ekkert að leggja á nema örreittan jarðarskrokkinn, og máske einhvern bláfátækan húsmann, sem kaupstaðar-spekúlantinn hefir sett á jörðina. Mjer finst því ekki hægt að fallast á þessa till. eins og hún 1iggur fyrir.