10.04.1922
Neðri deild: 45. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Jón Baldvinsson:

Háttv. þm. Borgf. (P. O.) hefir að mestu leyti verið svarað, en jeg vildi samt taka fram örfá atriði.

Það stendur víða svo á, t. d. fyrir austan fjall, að bændur margir hverjir eiga víðáttumikil lönd, og að því er jeg hygg einnig uppi í Borgarfirði, sem þeir hafa eigi tök á að nota til fulls einir, og hafa þeir þá hag af að leigja út slægjurnar, sem þeir geta ekki komist yfir að nota. Venjulega fá þeir það vel borgað, svo jeg sje enga ástæðu til að amast við því.

Dæmi háttv. þm. Borgfirðinga sannar ekkert, heldur mun hitt rjett, sem jeg sagði, að þrátt fyrir slæma landskosti í nágrenni Reykjavíkur, er búskapur þar miklu meiri en ætla mætti eftir landskostum.

Háttv. frsm. bjóst ekki við, að lagt yrði útsvar á menn, sem stunduðu laxveiði í einn eða tvo daga; en eftir þessu frv. er vissulega ýtt undir hreppsnefndir að gera það, og jeg efast ekki um, að það mundi verða gert, og af því mundi leiða eltingaleikur við menn, sem þá væru komnir á bak og burt og ekki mundi svara kostnaði, þar eð um svo litlar upphæðir væri að ræða.

Hitt finst mjer rjett, að leggja á þá, sem hafa verulegar tekjur af laxveiðinni, en það munu vanalega vera innansveitarmenn, og þó t. d. Laxá í Kjós sje eign útlendings, mætti eins leggja á hana útsvar fyrir því.

Út af kafla þeim úr brjefi frá hreppsnefnd Mosfellinga, sem háttv. frsm. las upp, skal jeg geta þess, að það yrði æðiörðugt fyrir hreppsnefndina að ná í alla þá menn, sem stunda veiði í t. d. Elliðaánum einn dag, hálfan dag, eða kannske ekki nema stutta stund úr degi. Finst mjer hálfhjákátlegt, ef þeir ætluðu sjer að fara að eltast við þá alla til að hafa af þeim útsvar. — Það má aftur á móti búast við, að Englendingar þeir, sem stunda laxveiði hjer á landi, muni tryggja sjer það með samningum áður en þeir leigja, að ekki verði á þá lagt.

Þá skal jeg víkja örfáum orðum að ákvæðinu um fiskiverkun í landhelgi. Það er leiðinlegt, að sama þingið, sem bannar útlendingum veiðar í landhelgi, skuli jafnharðan ætla að gera þessa veiði að tekjustofni, — með öðrum orðum semja lög, sem það ætlast til að verði brotin.