12.04.1922
Neðri deild: 47. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

57. mál, sveitarstjórnarlög

Jón Baldvinsson:

Hv. frsm. (Þorl. J.) kvað það vaka fyrir okkur, sem brtt. flytjum, að við vildum reyna að hindra, að sveitarfjelögin gætu lagt útsvar á þá menn, sem tekjur hefðu af laxveiði. En svo er ekki. Við viljum koma í veg fyrir það, að þeir menn sjeu eltir með útsvör, sem skreppa upp í sveitina með stöng svo sem 2–3 daga og stunda þar laxveiði sjer til gamans. Þetta viljum við hindra, en samkvæmt brtt. getur enginn sloppið undan útsvari, sem tekjur hefir af laxveiði, hvort sem það eru veiðitekjur eða leigutekjur. En hjá þeim, sem skreppa sjer til gamans, getur ekki verið um tekjur að ræða.

En hins vegar er með orðalagi frv. ýtt undir sveitarstjórnir að leggja á þessa menn, og þó að menn treysti því, að sanngjarnlega verði í þetta farið víðast hvar, er hæpið að treysta því, að svo verði alstaðar. En hins vegar teljum við sjálfsagt, að á afnot af veiði megi leggja, þó eigandinn sje ekki búsettur í hreppnum, svo sem t. d. er um Laxá í Kjós, enda hefir eigandinn allar tekjur, hvort sem það eru veiðiafnotin eða leigutekjur af laxveiðunum.

Háttv. frsm. gat þess hjer á dögunum, að menn hefðu fengið 160 kr. á dag fyrir veiði sína í Elliðaánum, en stöngin kostaði 20 kr. á dag. Þetta er nú ekki rjett. Stöngin kostaði meira, en ef hitt atriðið er rjett, þá hefir verið um einstakt heppnistilfelli að ræða. Mjer er þetta talsvert kunnugt, og jeg veit, að þeir, sem vel fiska, sleppa skaðlausir, en allur þorri veiðimanna tapar. Það er því ekki ástæða til að elta þá með útsvör. Sama máli er að gegna með þá, sem fara lengra, svo sem upp í Borgarfjörð. Fæstir taka veiðina heim með sjer; þeir gefa hana eða láta fyrir lítið verð. Jeg vænti því, að þessari brtt. verði vel tekið eins og síðast hjer í þessari háttv. deild.