24.03.1922
Neðri deild: 31. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 763 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

68. mál, fræðsla barna

Frsm. (Þorsteinn Jónsson.):

Háttv. þm Borgf. (P. O.) sagði, að hugur hefði ekki fylgt máli hjá mentmn., er hún kvartaði um það, að fjvn. gripi fram fyrir hendur hennar og kæmi fram með bráðabirgðabreytingar á fræðslulögunum. Jeg vil nú fræða þennan háttv. þm. dálítið nánara um orsakirnar til þess, að nefndin ber þetta frv. fram.

Eins og tekið er fram í ástæðunum fyrir frv., þá vildu sumir nefndarmanna ekki neitt bráðabirgðakák, heldur bera fram frv. stjórnarinnar óbreytt að mestu, og var jeg einn af þeim. Við kusum þó heldur að halda því ekki til streitu, til að kljúfa ekki nefndina, þar sem hæpið væri hins vegar, að það gengi fram. Orsökin til þess, að meiri hluti nefndarinnar kaus þessa aðferð, var annars sú, að þegar hún hafði gengið í gegnum stjórnarfrumvarpið og gert breytingar þær, sem henni þótti við þurfa, þá var það orðið svo nauðalíkt fræðslulögunum frá 1907, að nefndinni virtist það ekki myndi svara kostnaði að koma fram með nýtt lagabákn og ræða það, heldur aðeins koma fram með breytingar á þeim atriðum, sem á milli bæri. Ættu þeir háttv. þm., sem fresta vilja fræðslulögunum og draga úr skólaskyldunni án þess að raska fræðslumálagrundvellinum, að geta gengið að þessum breytingum.

Þá skal jeg snúa mjer að fyrirspurnum háttv. þm. Borgf. (P. O.). Hann hjelt því fram, að ef þetta frv. næði fram að ganga, þá yrði að gera breytingar á lögunum um laun barnakennara, því þar sem í þessu frv. sje ekki skuldbundinn nema 3 mánaða skólatími í heimavistarskólunum, þá sje, samkvæmt lögum, styrkurinn úr ríkissjóði þar með úti lokaður. Þessi skoðun háttv. þm. er algerlega á misskilningi bygð. Í frv. er ákveðið að heimilt sje, þar sem heimavistarskólar eru, að börnin sitji ekki í þeim lengur en 12 vikur. En þar með er ekki sagt, að skólarnir skuli ekki standa lengur en 12 vikur. Skal jeg til dæmis taka, að í launalögum barnakennara er ákveðið 6 mánaða skólahald, til þess að fræðsluhjeruðin fari ekki á mis við styrkinn úr ríkissjóði, en jafnframt eru börnin eftir fræðslulögunum ekki skylduð til að sitja í skólunum nema 8 vikur. Í þessu frv. er nákvæmlega um það sama að ræða.

Þá taldi háttv. þm. það galla á frv., að ekki væri tekið fram í því, að með því sjeu úr gildi numin þau ákvæði eldri laga, sem það breytir. Því er þar til að svara, að það leiðir náttúrlega af sjálfu sjer, að þegar tvenn lög brjóta í bága hvor við önnur, þá verða þau eldri að rýma. Annars tekur nefndin þakklátlega þeim breytingum á frv., sem betur mættu fara.