04.04.1922
Neðri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 770 í B-deild Alþingistíðinda. (914)

68. mál, fræðsla barna

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Jeg undrast ekki þó háttv. þm. Borgf. (P. O.) sje ekki allskostar ánægður með tillögur mínar og þyki þær ekki rýmka nóg á fræðslulögunum. Honum þykir undarlegt, að jeg skuli hafa skift skoðun á þessu máli frá því frv. háttv. fjvn. var á ferðinni hjer í deildinni. En það vill nú svo vel til, að þetta frv. mentamálanefndar var að mestu samið áður en fjvn. kom fram með sitt frv. Það mun og flestum háttv. þm. kunnugt, að frv. okkar gengur í þá átt að breyta sem minst frv. stjórnarinnar, og þá aðeins að því leyti, að rýmka fræðslulögin frá 1907, en frv. fjvn. er þess efnis að fresta eða jafnvel strika að miklu leyti út þessi lög. Það hlýtur því að vera vísvitandi eða óafvitandi misskilningur hjá háttv. þm. Borgf. að halda, að við höfum lagað okkar frv. eftir frv. fjvn. eða breytt í nokkru skoðun síðan það var hjer til umræðu.

Mjer skildist á háttv. þm. Borgf. (P. O.), að hann vildi skilja mentmn. svo, að hún ætlaðist til, að skólar þyrftu ekki að standa lengur en í 12 vikur til þess að fá hlutfallslega sama styrk úr landssjóði og aðrir skólar, sem lengur störfuðu. Þetta hefir nefndin alls ekki fallist á; hefir hún áður getið þess, að þá væru minni líkur til að fá góðan kennara, ef tíminn væri svo stuttur. Þess vegna áttu tveir hreppar að sameinast í eitt fræðsluhjerað, ef hvor hreppur fyrir sig þarfnast aðeins 3 mánaða kenslu. Það er heimilað með lögum, og því engin vandkvæði á því.

Háttv. frsm. sagði ennfremur, að mörg fræðsluhjeruð treystust ekki til að halda uppi lögskipaðri kenslu. Henni hefir verið haldið uppi til þessa víðast hvar og þó að skólarnir hafi verið lagðir niður, stafar það ekki af því, að þessi fræðsluhjeruð hafi ekki viljað halda þeim við, heldur af því, að þau hafa ekki fengið kennara. Hinsvegar hafa komið kvartanir frá ýmsum fræðsluhjeruðum um, að fræðslan hjá þeim væri ekki góð, og þyrfti að lengja skólatímann, einkum á þann hátt, að skólinn standi lengur að dagatali.

Jeg held, að það geti ekki komið til mála að stytta námstímann í fastaskólum eða kaupstaða- og þorpaskólum. Jeg þekki engin dæmi þess, að menn hafi viljað láta skólana starfa styttri tíma en 6 mánuði. Það getur verið, að hv. þm. Borgf. þekki einhver slík dæmi, en jeg gæti trúað að það væru ekki til.

Heilsufar barna í skólunum hefi jeg áður minst á í ræðu hjer í háttv. deild. Jeg tel skólagönguna með öllu hættulausa fyrir allan þorra barnanna. Hitt er annað mál, að fyrir getur komið, að einstaka barn þoli ekki skólavistina, en nú eiga læknarnir að hafa eftirlit með því. Ef hjer væri um einhverja hættu að ræða fyrir heilsu barnanna, held jeg að annað ráð væri miklu heilladrýgra en stuttur skólatími að dagatali, og það er að láta börnin ekki sitja lengi á dag í skólanum. Jeg get ímyndað mjer, að sumstaðar sjeu börnin látin sitja of lengi á hverjum degi á skólabekk, en það er undir skólanefndum, kennurum og læknum komið, og verður að treysta þeim til þess að sjá um að börnin sjeu ekki ofþreytt.

Jeg er sammála háttv. þm. Borgf. (P. O.) um það að fækka kennurum eins mikið og framast má vera. Jeg er þeirrar skoðunar um alla starfsmenn, að það þurfi að fækka þeim eins og hægt er. Láta þá hafa nóg að vinna, en sæmileg laun til að lifa af. Það gæti nú verið, að það mætti fækka kennurum í kaupstaðaskólum nokkuð með því móti, að börnin gengju styttri tíma í skólana á degi hverjum en nú er.

Jeg vona nú, að hv. deild samþykki þetta frv. með sem minstum breytingum, því að þá kemst það gegnum þingið. Annars, ef menn gera við það miklar brtt., er líklegast að það tálmi því, að það nái fram að ganga.