04.04.1922
Neðri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 775 í B-deild Alþingistíðinda. (918)

68. mál, fræðsla barna

Frsm. (Þorsteinn Jónsson):

Það kannast sjálfsagt sumir hv. deildarmenn við það, að þegar skipi er siglt að landi, virðist skipverjum landið færast nær þeim, en gæta ekki þess, að þeir færast nær landinu sjálfir. Nokkuð líkt þessu finst mjer háttv. þm. Borgf. (P. O.) fara.

Honum finst jeg hafa þokast frá skoðun minni í áttina til sín, en gætir þess ekki, að það er hann, sem hefir snúið frá villu síns vegar og er nú orðinn sanngjarn og talsvert skynsamur í skoðunum, og gleður það mig mjög, hvað hann nálgast skoðanir mentmn.

Mjer stendur á sama um það, þó að hann haldi að mentmn. sje að færast í skoðunum í áttina til hans, en veit ekki, að það eru hans skoðanir, sem eru að breytast til batnaðar og eru að verða líkari skoðunum mentamálanefndar en áður hefir verið.