08.04.1922
Neðri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 782 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

68. mál, fræðsla barna

Jón Þorláksson:

Mjer þótti hv. frsm. (Þorst. J.) ekki gera alveg nógu vel grein fyrir afstöðu nefndarinnar til brtt. 208, og því vil jeg segja nokkur orð.

Þessi brtt. er víðtækari en svo, að hún sje eingöngu til þess að leyfa annarshversdagsskóla. Til þess þarf nú ekki heldur nein sjerstök ákvæði, því að þetta hefir verið leyft af yfirstjórn fræðslumála og viðkomandi skóli samt verið látinn njóta sömu rjettinda og þeir skólar, sem hafa haft tvær deildir og hvor þeirra notið kenslu í 6 mánuði. Brtt. fer fram á tvent. Annað er að stytta skólatímann á ári úr 24 vikum niður í 12 vikur og hitt er að færa skólaskyldualdur niður úr 4 árum í tvö ár. Þar sem komnir eru heimangönguskólar, getur því skólahald minkað niður í ¼ þess, sem nú er. Og þótt mjer gæti sýnst rjett að minka það eitthvað, þá get jeg alls ekki fallist á að kippa því svo burt alt í einu.

Brtt. fer fram á þessa heimild fyrir heimangönguskóla, en í frv. mentamálanefndar er gert ráð fyrir að leyfa þetta aðeins sem undantekningu við heimavistarskóla í sveitum. Á þetta við þau rök að styðjast, að miklu erfiðara er að stofna og starfrækja heimavistarskóla í sveitum en heimangönguskóla í kaupstöðum eða kauptúnum. Brtt. gerir þessa heimild almenna. Og hver getur fullyrt, nema ýmsir verði þá fegnir að nota sjer þann sparnað að minka skólahald að ¾ hlutum?

Brtt. veldur því ennfremur, að allvíða mundi það, sem nú er farskóli, verða talinn heimangönguskóli. Þetta gæti átt sjer stað þar, sem kent er á tveimur stöðum, 12 vikur á hvorum, og húsrúm og hollustuhættir samþykt af yfirstjórn fræðslumála. Þetta mundi breyta mjög bæði launakjörum kennara þar og einnig framlagi ríkissjóðs til launanna. Launin hækkuðu úr 300 upp í 1600 kr. og framlag ríkissjóð úr 150 upp í 800 kr. og dýrtíðaruppbót að auki.

Hve mörg fræðsluhjeruð mundu nota sjer þetta, veit jeg ekki, en eflaust yrðu þau nokkur, og gæti það þá munað talsverðu fyrir ríkissjóð.