05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

58. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Ólafur Proppé):

Jeg bað þess fyrir nokkrum dögum, að þetta frv. væri tekið af dagskrá, í því skyni að koma með nokkrar brtt. við það. Nú liggja þær hjer fyrir á þskj. 190.

Þessar brtt. eru svo til komnar, að sjávarútvegsnefndir beggja deilda komu sjer saman um þessar breytingar, og eru þær bornar hjer fram til þess að frv. þurfi ekki þeirra vegna að flækjast milli deilda.

Breytingin nær til báta, frá 10 til 20 smálesta að stærð. Þeir eru víða notaðir, t. d. er meiri hluti þeirra báta, sem Vestmannaeyingar nota, af þessari stærð. Það þykir nokkuð hart, ef þeir þyrftu að fara í önnur hjeruð og sigla þar á stærri bátum til þess að fá rjettindi til að stýra bátum sínum. Af sömu ástæðum er siglingatíminn styttur úr 36 í 24 mánuði, en aftur ákveðið að formenska á bát, yfir 10 smálesta, geti komið í staðinn, í stað þess að áður var lágmarkið 6 smálestir.

Þá er brtt. við 7. gr., sem gerir ráð fyrir því, að ákvæði hennar komi ekki til framkvæmda fyr en að 2 árum liðnum frá því, er lögin annars ganga í gildi. Ástæðurnar eru þær, að mesti fjöldi manna hlýtur að koma til þess prófs, sem þar um ræðir, einkum fyrst í stað. Má nefna að t. d. í Vestmannaeyjum munu verða um 70 manns, sem prófið þurfa að taka í haust til þess að geta stýrt bátum sínum næsta vetur. Því er lagt til, að prófið megi taka líka í fjórum kaupstöðum öðrum en Reykjavík í þessi tvö ár. Held jeg, að vel sje gengið frá prófnefndunum, þar sem forstöðumaður stýrimannaskólans og stjórnarráðið eiga að sjá um þær.

Jeg vona því, að hv. deild, sem hefir tekið frv. vel, taki líka þessum brtt. vel, og samþykki þær og afgreiði síðan frv. til hv. Ed.