05.04.1923
Neðri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (1070)

59. mál, atkvæðagreiðsla fjarstaddra manna við alþingiskosningar

Sveinn Ólafsson:

Jeg er ekki frá því, að hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) hafi skilið það, sem hjer er um að ræða. öðruvísi en alment er gert, hafi á því „reikningslegan“ skilning; og mig furðar á því, að hann, sem kunnur er staðháttum til sveita, skuli ekki sjá, að eins og frv. er nú, er mönnum, sem forfallaðir eru. meinað að neyta kosningarrjettar síns, nema þeir nái til læknis eða hreppstjóra. Hann taldi auðvelt að koma boðum til hreppstjóra kjörfundardaginn, en þar er því að svara, að þann dag er hreppstjórinn einmitt mest hlaðinn störfum og teptastur, en hins vegar þýðingarlaust fyrir kjósendur að senda atkvæði sín, nema vottorð sje áður komið frá hreppstjóra eða trygging sje fengin fyrir því. Það er engan veginn auðhlaupið altaf að vottorðum þessum, síst þar, sem lítt fær vötn, sjór eða líkar torfærur liggja á milli kjósanda og kjörstaðar, eða þá óveður aftrar, eins og oft getur komið fyrir. Brtt. á þskj. 276 er jeg samþykkur. Hún er hliðstæð ákvæðum kosningalaganna almennu, um aðstoð við blinda eða sjóndapra menn. Finst mjer undarlegt, að þeir menn, sem vilja gera sjúkum mönnum ljettara fyrir að greiða atkvæði, skuli setja sig á móti þeirri brtt.

Til svars gegn því, sem háttv. 1. þm. Skagf. (MG) sagði um atkvæðasmölun í sambandi við mína brtt. vildi jeg minna á það, að ekki er loku fyrir það skotið, að hreppstjórar geti líka verið „agitatorar“, og þarf eigi langt um það að leita. Jafnvel sömu söguna má segja um læknana, og dettur mjer ekki í hug að áfellast þá fyrir það. En auðvitað verða vottorðsgefendur að vera ábyggilegir og samviskusamir menn, og ætti kjörstjórn hver að geta metið áreiðanleik þeirra.