25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1320 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

139. mál, fjáraukalög 1923

Lárus Helgason:

Jeg á brtt. á þskj. 405. III, sem jeg af vissum ástæðum tek aftur.

Háttv. 1. þm. Skagf. (MG) hefir þegar mælt með sjúkrastyrk til Gísla sýslumanns Sveinssonar, og er það, er hann skýrði frá í því sambandi, síst ofmælt. Það er kunnugt, að þessi maður varð fyrir mjög miklu áfalli á heilsunni. Einnig er það kunnugt, að hann og bróðir hans komu sjer áfram á námsárunum með óvenjulega litlu fje. Þessari reglu hefir þessi háttv. herra ætlað sjer að halda í lengstu lög. Hann er þannig skapi farinn, að hann kann best við að bjarga sjer án hjálpar annara, og því hygg jeg, að hann hafi ekki sótt um styrk til að leita sjer heilsubótar á sama hátt og aðrir gerðu á þeim tíma. Þessi litli styrkur, sem hjer er um að ræða, er næsta lítill móts við það, sem aðrir fengu, sem líkt stóð á fyrir. Að Gísli Sveinsson fór að leitast við að fá styrk, hygg jeg vera einungis fyrir það, að ferðin til útlanda og dvöl hans þar varð honum svo dýr, að hann gat illa staðist það, sem vonlegt er. Jeg vænti, að háttv. deild sjái, hve hjer er sanngjarnlega farið eða sparlega í garð landssjóðs, og samþykki þessa litlu upphæð, sem hjer er átt við.