25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

139. mál, fjáraukalög 1923

Þorleifur Guðmundsson:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að taka nú til máls, en þar sem enginn annar ætlar sjer að tala, ætla jeg að fara fáeinum orðum um nokkur atriði. Það er þá fyrst að minnast á brtt. háttv. 1. þm. Reykv. (JakM), og legg jeg fastlega með þeirri hækkun, sem þar er farið fram á á starfsmannalaunum við símann, því að margir þeir, sem við hann starfa, eiga við þröngan kost að búa. Annars er jeg heldur á móti öllum launahækkunum. Jeg hefi heyrt marga telja það rjettmætt, að símastúlkum væri bætt upp, og er það að vísu rjett, en það er ekki rjett, að símaþjónar hafi nægileg laun. Þau eru svo illa viðunandi, að ef þeim býðst vinna annarsstaðar, þá eru þeir óðara farnir. Eins og kunnugt er. hafa þeir ekki nema 250 krónur í mánaðarlaun með dýrtíðaruppbót. Þá ætla jeg að minnast á aðra brtt. sama hv. þm. (JakM), sem virðist koma með sjerstaklega sanngjarnar tillögur að þessu sinni. Þessi brtt. er undir staflið XXII og fer fram á eftirlaun eða ellistyrk til ekkjunnar Ragnheiðar Gísladóttur. Jeg heyrði í gær, að hæstv. atvinnumálaráðherra fann að því, að ekkjum skyldi vera veittur styrkur án þess að taka tillit til, hvort menn þeirra hafi verið merkismenn eða ekki. Hvað sem um það er, þá finst mjer, að ekki eigi síður að taka tillit til, hvort konurnar hafi verið merkiskonur eða ekki. Og það er fullvíst, að prestsekkja sú, er hjer um ræðir. er mesta fyrirmyndarkona, er bjó með prestinum mesta rausnarbúi, eftir að hann var orðinn hrumur og til engra hluta fær, og eftir að hún varð ekkja hefir hún búið góðu búi, svo að með sanni mætti hún vera þjóðarstolt. Þessar 300 kr. eru aðeins örlítill hluti af öllu því, sem hún hefir lagt til ríkisþarfa.

Svo að jeg komi nær sjálfum mjer, ætla jeg að minnast svolítið á brtt. mína viðvíkjandi styrk til að dýpka innsiglinguna á Stokkseyri. Deildarmenn muna sjálfsagt það, sem jeg sagði í fyrra um þetta mál, og finst því kannske núna lítil ástæða til að skýra nánara frá málavöxtum. Kringumstæðurnar hafa að ýmsu leyti breyst, sjerstaklega hvað snertir fjárstyrk þann, er menn bygðu á til þessa þarfa fyrirtækis. Það var von á styrkveitingum frá sýslunni, Fiskifjelagi Íslands og mótorbátaeigendum, en loforð um það hefir ekki fengist formlega fyr en nú, og er því nú ekkert í veginum í því tilliti með að taka til starfa. Nú eru menn vissir um að fá þennan fjárstyrk, og er í ráði að byrja verkið í júlí á þessu sumri, en þá væri bagalegt, ef sá styrkur, sem farið er fram á að veita úr ríkissjóði, yrði ekki veittur. Jeg er þess fullviss, að háttv. deild sje samþykk þessari styrkveitingu, því að það hafa heyrst víða raddir um það, hversu mikil nauðsyn væri á að hrinda þessu í framkvæmd. Meðal þingmanna hefir mjer fundist góður byr með þessu máli, og er jeg fyllilega samþykkur því, sem háttv. þm. N.-Ísf. (SSt) sagði, að fje væri hvergi betur varið af oss Íslendingum en í sjónum, ef til nota kæmi. Þarf jeg svo ekki að fara frekari orðum um þetta, því að jeg þykist viss um, að háttv. þingdeild sje ákveðin í að samþykkja þessa brtt. Jeg lít svo á, að það beri að leggja fje til að vernda líf og hagsmuni sjómannastjettarinnar, þar sem hún gefur langmest í ríkissjóð. Og þótt peningum megi heita mjög vel varið til að efla listir og mentir, þá tel jeg þó brýnni nauðsyn að styrkja sjómannastjettina íslensku.