01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1427 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

139. mál, fjáraukalög 1923

Eiríkur Einarsson:

Háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) bættist við í Geysisferðina, og vil jeg leiðrjetta misskilning, sem kom fram í ræðu hans. Hann hjelt því fram, að ef þessar 3000 kr. væru veittar til læknisbústaðar í Grímsnesi, þá væri það sama og að þingið gæfi upp kaupverðið á Geysishúsinu; það kostaði 3000 kr.

Jeg geri ráð fyrir, að þó að Geysishúsið hafi verið ódýrt, þá geti engri átt náð, að hagnaðurinn við að fá það svari til sanngjarns og venjulegs styrks til sjúkraskýlis, hvað þá þess litla styrks, sem hjer er leitað. (JÞ. Það kostar 20 þús. kr. að byggja húsið upp aftur). Já, þetta segir sá byggingarfróði verkfræðingur, en hann má þó best vita, hvað fúnar spýtur muni gilda í nýrri byggingu, þegar búið er að rífa þær úr Geysishúsi og flytja að Laugarási. (JS: Bændur telja hagnaðinn 7 þúsund kr.). Já, þetta segir einn úr hersingunni, en það er áreiðanlega ekki óvilhalt vitni. En þeir telja, er þekkja, að Geysishúsið hefði þó aldrei orðið virt meira en 5000 kr., og er þá nógu langt farið. Sjást þarna rök háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ). Væri því í mesta lagi um 2000 kr. ágóða að ræða við Geysishúsið, og má þá mikið bæta upp til þess Grímsnesingar njóti sömu kjara og önnur læknishjeruð, er leita þingstyrks.

Jeg þarf ekki að svara háttv. þm. Borgf. (PO), þar sem jeg vil heldur bera friðarorð á milli míns kjördæmis og hans. Veit jeg, að Borgfirðingar vilji unna okkur Árnesingum þessara hlunninda, er brtt. mín fer fram á, og unna uppsveitarmönnum í Árnessýslu hjálparinnar, hvað sem þingm. þeirra á Skaganum líður.