21.04.1923
Neðri deild: 47. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1257)

115. mál, verslun með smjörlíki

Sveinn Ólafsson:

Það er hálfleiðinlegt að tala hjer fyrir tómum bekkjum. En það, sem jeg vildi segja, er mjög stutt. Það er um 5. gr. frv., sem jeg tel varhugaverða og tæplega rjett hugsaða hjá háttv. landbúnaðarnefnd. Þegar hún er borin saman við 1. gr., þar sem skilgreint er, hvað sje smjörlíki, en það er talið þar feitmeti, sem gert er eða blandað af öðrum fituefnum en mjólkurfitu. Þegar svo 5. gr. bannar tilbúning á slíku feitmeti þar, sem smjörgerð er höfð um hönd, þá getur það hitt óþægilega smjörgerðarheimilin. Það er vitanlegt, að smjörgerð er á hverju heimili svo að segja til sveita. En algengt er þar líka að blanda smjör til heimilisnota annari fitu, sem þá yrði eftir ákvæðum þessarar greinar óleyfilegt, með því að hvergi er tekið fram, að ákvæðin eigi aðeins við smjörbú, svo sem ætlunin mun hafa verið. Mjer virðist hins vegar, að úr þessu megi bæta, með því að bæta inn í greinina á eftir „smjörlíki“ orðunum: til sölu. Vildi jeg biðja nefndina að athuga þetta.