13.04.1923
Neðri deild: 41. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1551 í B-deild Alþingistíðinda. (1316)

110. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Það er nú orðið æðimargt, sem háttv. þingdm. hafa haft út á frv. þetta að setja. Býst jeg ekki við að svara hverju atriði í ræðu hvers þeirra fyrir sig, sem með aðfinslur hafa komið, því að ræður þeirra gripu þannig hver inn í aðra, að svar við einni er að nokkru svar við hinum líka. Sumar ræðurnar voru líka þannig fram settar, að vafi getur leikið á, út á hvað þær gengu.

Jeg er nú næstum búinn að gleyma ræðu hæstv. atvrh. (KIJ), er hann hjelt. er frv. þetta var hjer fyrst til umr. Yfirleitt var hann frv. vilviljaður, en hreyfði því, að landbn. hefði, að hans dómi, gengið alt of skamt með breytingar á hinu upphaflega frv. Búnaðarfjelagsins.

Landbn. var kunnugt um það, er hún hafði frv. til meðferðar, að hæstv. atvrh. var ekki vel ánægður með sum ákvæði frv. og að hann vildi gjarnan fá því breytt, sjerstaklega í þá átt, að skipun jarðræktarmála yrði framvegis svipuð tilhöguninni, sem nú er á vega- og vitamálum. En nefndin sá fram á, að með þeim breytingum mundi Búnaðarfjelag Íslands ekki geta starfað framvegis á þeim grundvelli, sem það hefir gert hingað til. En þar sem þetta fjelag er nú orðið öflugt og hefir unnið sjer fult traust manna um land alt, vildi nefndin ekki verða til þess að veikja það á neinn hátt. Nefndin áleit líka, að sama marki, sem vakti fyrir hæstv. atvrh. (KIJ), yrði náð með því, sem hún gerði að skilyrði fyrir fylgi sínu við frv., að fyrirkomulagi Búnaðarfjelagsins yrði breytt á þann hátt, að atvinnumálaráðuneytið fái rjett til þess að skipa tvo menn í stjórn þess, eftir tillögum landbúnaðarnefnda Alþingis. Þannig fengi atvinnumálaráðuneytið, auk þess, sem það hefir yfirstjórn ræktunarmála samkvæmt 1. gr. frv., íhlutunarrjett ásamt þinginu um störf þau, er Búnaðarfjelagið á að annast.

Einnig var nefndinni ljóst, að framkvæmdarstjóri sá, sem stjórn Búnaðarfjelagsins kýs, verður eins settur gagnvart atvinnumálaráðherra sem vega- og vitamálastjórar. Fer það einnig í sömu átt og óskir hæstv. atvrh. (KIJ). Nú hefir Búnaðarfjelag Íslands gengið inn á þessar till. landbn. um tilhögun á stjórn fjelagsins. Er það aðallega vegna þess, að fjelagið álítur framgang þessa máls svo þýðingarmikinn, að rjett sje að slaka til og sleppa þessum rjetti sínum. Er það líka sanngjarnt, að þegar svona mikið fje er veitt úr ríkissjóði til þessara mála, þá fái stjórnin íhlutunarrjett um meðferð þess.

Þá mintist hæstv. atvrh. (KIJ) á ríkisveðbankann og samband 4. kafla frv. við ríkisveðbankalögin. Nefndin var svo óheppin, að í henni á enginn lögfræðingur sæti, svo að vera má, að út frá því sjónarmiði sje eitthvað hægt að setja út á frv. Viðvíkjandi þessari hlið málsins þóttist þó nefndin hafa nokkra tryggingu í því, að við samning upphaflega frv. aðstoðaði lögfræðingur, að tilhlutun Búnaðarfjelags Íslands. Jeg skal játa það, að fljótt á litið getur virst einkennilegt að setja þessi ákvæði um lán úr veðbankanum inn í jarðræktarlögin. En nánar aðgætt er í rauninni ekkert við þetta að athuga. Því er oft svo varið, að yngri lög breyta oft meira eða minna eldri lögum, eða eru sett til viðbótar ákvæðum í þeim. Má t. d. benda á það ákvæði, sem oft er sett í lög, að með þeim sjeu numin úr gildi öll ákvæði í eldri lögum, er kunna að fara í bága við þessi lög. Ákvæði laga um það, hvaða eldri lögum þau breyti, eru því sjaldan tæmandi. Nefndin gat því ekki sjeð neitt athugavert við það, þó þetta ákvæði standi í jarðræktarlögunum, heldur fanst henni fyllilega rjettmætt að hafa það þarna, þar sem líka er tekið fram í 12. gr. nefndra laga, að nánar verði tekið fram um þessi atriði í reglugerð. Þetta gæti því verið sem nokkurskonar reglugerð, er bankanum bæri að fara eftir.

Þá er það þriðja atriðið, sem hæstv. atvrh. (KIJ) mintist á, um vjelayrkjuna. Spurði hann, hvort meiningin væri, að fje til kaupa og starfrækslu jarðræktarvjela eigi að koma úr ríkissjóði. Já; það er beinlínis ákveðið í frv., að svo eigi að vera. Nefndin vill þó eigi, að langt sje gengið fyrst um sinn með kaup á jarðræktarvjelum, fyr en reynslan hefir skorið úr, hversu nothæfar þær eru og vel þær henta hjer; og sökum þess, hve reynslan er lítil enn, en verkfærin dýr, leggur hún til, að þeim verði ekki fjölgað meir að sinni.

Um fjárveitinguna úr ríkissjóði til þessa liðs skal jeg geta þess, að ætlast er til, að hún sje aðeins til bráðábirgða, uns nýr sjóður, vjelasjóður, hefir verið stofnaður og er orðinn það stór, að hann getur tekið þessi fjárframlög að sjer.

Fleira held jeg, að hafi ekki verið í ræðu hæstv. atvrh. (KIJ), sem jeg þarf að svara. En þá var það háttv. 2. þm. Reykv. (JB), sem jeg þarf að snúa mjer að lítið eitt. Því, sem hann mintist á viðvíkjandi 4. kafla frv. og ríkisveðbankanum, hefi jeg nú þegar svarað og þarf ekki að fara nánar út í það.

Viðvíkjandi erfðafestulöndum get jeg tekið fram, að nefndin kynti sjer ekki sjerstaklega þær reglur, er farið er eftir hjer í Reykjavík, svo að vera má, að eitthvert misrjetti komi fram. En bæjarstjórnin gaf nefndinni ekkert tilefni til þess að athuga þetta, og nefndin er fús til að kynna sjer þetta atriði.

Þá vík jeg að ræðu háttv. 1. þm. Árn. (EE). Ræða hans var nú þannig, að jeg gat ekki gripið föstum tökum á neinu hjá honum. Þó heyrði jeg, að kalt andaði til mín í ræðu hans fyrir það, að mjer skildist, að jeg vœri andstæður stórfyrirtækjunum austan fjalls. Því var fjarri, að jeg vildi á nokkurn hátt álasa bændum þar í þessu sambandi, en talaði einungis um, hve nauðsynlegur væri góður undirbúningur og fyrirhyggja, þegar um slík fyrirtæki sem þessi er að ræða, sem miljónum króna er varið til.

Jeg skal ekki fara mikið inn á Skeiðaáveituna nú, nje þann mikla kostnað sem við hana hefir orðið fram yfir það, sem áætlað var. nje heldur hvort sá kostnaður er sök þeirra, er áætlunina gerðu í upphafi. En þótt jeg taki undir eitt ræður þeirra háttv. 1. þm. Árn. (EE) og háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) og viðurkenni, að 1917 hafi ekki verið hægt að sjá fyrir dýrtíðina 1920, þá álít jeg þó, að sjá hefði mátt fyrir þessa „óbilgjörnu klöpp“, sem háttv. 1. þm. Árn. (EE) talaði um, að tefði svo verkið og mestum kostnaði hefði valdið. Þar ætla jeg, að sje um vítavert athagaleysi að ræða af hendi þeirra, er áætlunina gerðu. Við það þurfti einungis rannsókn, en enga spádóma.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) taldi Búnaðarfjelagi Íslands ófært að standa fyrir slíkum fyrirtækjum sem þessum, nema það rjeði verkfræðing í þjónustu sína, því að það hefði ekki nægilega vel mentaða menn á því sviði. Jeg skal ekki þrátta um þetta, en fjelagið hefir nú í þjónustu sinni mann, sem er sjerfræðingur í vatnsveitu og öðru, er að áveitum lýtur.

Hvað viðvíkur Miklavatnsmýraráveitunni, sem átti að vera tilraunaáveita, þá er það alls ekki rjett hjá háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ), að Búnaðarfjelaginu hafi verið falin framkvæmd hennar, og því síður viðhald.

Þar sem nú er svo komið, að áhugi manna fyrir þessu fyrirtæki er dauður og skurðirnir fyltir af sandi, þá ber það vott um, að árangurinn hafi ekki orðið sá, sem upphaflega var ætlast til. Hv. 1. þm. Árn. (EE) tók fram, að einhver yfirunisjón þyrfti að vera með þessum framkvæmdum Reyndar skildi jeg nú ekki altaf, hvað háttv. þm. (EE) var að fara, en þetta virtist mjer þó, að hann áliti aðalnauðsynina. Það er nú alveg óþarft fyrir háttv. þm. (EE) að vera að fárast út af þessu, því að í frv. er tekið fram skýrum orðum, að Búnaðarfjelag Íslands eigi að hafa það. Telur nefndin líka best fara á því og að umsjóninni sje vel borgið í höndum þess fjelags. Háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) skaut því fram í sambandi við þetta, að stofna þyrfti nýja stöðu við Búnaðarfjelagið til þess að hafa þessar framkvæmdir á hendi.

Það er ekki ætlun nefndarinnar, að til þess þurfi að koma, að stofna þurfi nýja stöðu, þó að lægi fyrir að vinna að fleiri stórvirkjum en þegar hefir verið byrjað á. Búnaðarfjelagið hefir ýmsa færa menn í þjónustu sinni, þó að ef til vill skorti á, að þeir geti að öllu leyti leyst af hendi störf verkfræðinga. En jeg býst við, að það yrði að engu leyti lakara eða dýrara, þó að Búnaðarfjelagið yrði að leita stundum út fyrir takmörk sín og fá verkfræðinga til að veita einhverjum stórfyrirtækjum forstöðu. Fyrir nefndinni vakti sjerstaklega, að með þessu móti fæst meiri festa í allar framkvæmdir, þar sem umsjón verkanna er lögð í hendur Búnaðarfjelagsins.

Háttv. 1. þm. Árn. (EE) gat um það í sambandi við þau miklu fyrirtæki, er Sunnlendingar hafa með höndum, að jeg hefði lagt sjerstaklega á móti þeim og kent bændum þau mistök, sem þar hafa orðið. Þetta er hreinasti misskilningur og rangt farið með orð mín. Háttv. þm. (EE) sagði, að þingið hefði styrkt fleiri svipuð fyrirtæki og kvaðst geta bent á hliðstætt dæmi, þar sem væri tilstyrkur sá, er Þingbúum er veittur til vatnsveitu. En áveitufjelag Þingbúa hefir hvorki sótt um styrk nje fengið, heldur hefir verið samþykt lánsheimild til handa þeim. Þingbúar hafa unnið þetta verk algerlega á eigin spýtur og snúa sjer nú til þingsins með beiðni um lán með hagkvæmum kjörum. Háttv. þm. (EE) getur verið sannfærður um, að ef lánskjör væru ekki eins erfið sem nú er, hefði þetta áveitufjelag aldrei leitað til þingsins um lán. (EE: Síður en svo, að jeg telji það eftir).

Þá talaði háttv. 1. þm. Árn. (EE) um, að þessi ríkissjóðsstyrkur, sem frv. fer fram á, myndi koma æðimisjafnt niður á sveitir landsins. Ýms hjeruð mundu alls ekki geta notið hans, og nefndi hann til dæmis Öræfasveit í Austur-Skaftafellssýslu; kvað hann þar ekki vera annað en harðbala. (EE: Jeg nefndi Öræfin sem dæmi vegna nafnsins, en gat ekki um neina harðbala). Mjer skildist, að háttv. þm. (EE) hefði gert rannsókn í þessu efni og komist að þeirri niðurstöðu, að um nokkrar framkvæmdir í jarðrækt gæti þar ekki verið að ræða. Jeg hafði þó hugsað, að þarna væri vel hægt að framkvæma einhverjar jarðabætur. Þessar og þvílíkar röksemdir, sem eiga að sýna fram á, að hjer sje ekki verið að fara rjetta leið og öllum hjeruðum sje ekki gert jafnhátt undir höfði, bera vott um svo mikla fákunnandi, að þær eru ekki svaraverðar.

Sami háttv. þm. (EE) sagði og, að jeg hefði tekið fram í framsöguræðu minni, og sagt sem ámæli til Sunnlendinga, að því meiru sem þeir kostuðu upp á land sitt, því verri yrði afkoman. Þetta hefir mjer aldrei komið til hugar að segja, og því síður hefi jeg sagt það. Jeg tók það fram, og það í engu sambandi við þessi stórfyrirtæki Sunnlendinga, að það liti nærri því svo út, að þar, sem menn virtust standa best að vígi um landskosti, væri afkoma engu betri en þar, sem menn yrðu að rækta upp móa og mela. Til þess þyrfti dugnað og atorkusemi, en af hinu gæti auðveldlega leitt hóglífi. Það er fjarri mjer að ámæla bændum þeim, sem hlut eiga að máli, að þeir hafa reynt að hrinda þessum stórvirkjum í framkvæmd. Þeir hafa enga sjerþekkingu í þessu efni og verða að reiða sig á það, sem verkfróðir menn segja. Það hefir verið talið vinnandi verk að framkvæma þessar umbætur, og því eðlilegt, að bændur hafi tekið undir það. En hinu held jeg fram, að jeg hefi ekki fengið enn þá sannanir fyrir, að menn sjeu hjer á rjettri leið. Fyrir mjer vakir, að ýmislegt geti komið fram, er sýni og sanni, að hjer hefir verið of fljótt og geyst af stað farið, án þess að rannsóknir og tilraunir í smærri stíl hafi verið gerðar til hlítar. Mjer þætti vænt um, ef reyndin yrði sú þegar til kemur, að unt væri að segja, að þessi stórfyrirtæki borguðu sig og lyftu þessum sveitum á hærra menningarstig og þroska. En það hefir þegar komið í ljós, að þessi fyrirtæki eru að ofþjaka búendur í þessum hjeruðum, og verður tæplega hjá því komist, að ríkissjóður eða bankar verði að hlaupa undir bagga og leggja fram fje til þess að halda bændum við. Jeg á hjer einkum við Skeiðaáveituna. Um vatnsþurkunina fyrir austan tók jeg fram, að þó að um mikið fje væri að ræða, þá ætti að verja því til að vernda frjósamt land, og mætti því síður um það tala, þó að jeg hafi ekki trú á, að það komi að fullum notum.

Það kann að vera, að jeg hafi gleymt að svara einhverju í ræðu háttv. 1. þm. Árn. (EE), en þau atriði munu ekki svo áríðandi, að það komi að baga. Á jeg þá aðeins eftir að minnast með þakklæti á það, hvernig háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) tók í þann kafla frv., er ræðir um jarðræktarlán. Jeg vildi helst óska, að jeg gæti sannfært háttv. þm. (JÞ) um það, að þessi kafli mætti standa þarna, en þyrfti ekki að koma inn í lögin um ríkisveðbanka. Háttv. þm. (JÞ) hefir altaf barist fyrir, að landbúnaðurinn fái að njóta þeirra sjóða, er í þann banka eiga að renna, og um leið og jeg þakka honum fyrir það, vil jeg lýsa yfir, að jeg er þ algerlega sammála honum.

Þá mintist háttv. þm. (JÞ) á nýbýlin, og er sammála landbn. Nefndin vill ekki ganga lengra en þetta, og er vafasamt hvort hún hefði gengið svo langt, ef ekki hefði þegar verið byrjað á tilraunum. Nefndin áleit rangt að gera þær tilraunir að engu, þar sem talsverðu fje hefir verið varið til þeirra, en reynsla ekki fengin enn þá.

Háttv. 1, þm. Reykv. (JakM) mintist líka á þennan margumrædda lánveitingakafla og bar fram tillögu um að vísa málinu til fjhn. Jeg veit ekki hvers vegna hv. fjhn. þyrfti sjerstaklega að fjalla um þetta mál. Nefndin getur komið fram áhrifum sínum á annan veg, þó að málinu sje ekki vísað til hennar; henni er innan handar að koma á fund með landbn. og ræða málið við hana. Í þessu sambandi skal jeg geta þess, að jeg get ekki fallist á það, sem háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) sagði, að ekki geti verið að ræða um að bera fram brtt. við frv., þar sem það væri flutt af nefnd. Nefndin vill fúslega leyfa einstökum þm. að koma á fund með sjer og ræða brtt., er þeir kunna að vilja koma fram, og taka þær til greina, eftir því sem hún frekast getur. Sama vil jeg taka fram við hv. 1. þm. Reykv. (JakM), en jeg skoða tillögu hans komna fram til þess að tefja fyrir málinu. Ef tilgang hennar er annar, má ná honum á annan hátt. Jeg óska því, að málið verði ekki tafið með þessu, en háttv. fjhn. getur hæglega rætt það í viðtali við landbn.