23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

99. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Bjarni Jónsson:

Jeg vil fylgja því fast fram, að öll þorp, sem hafa um 500 íbúa, gjaldi þennan skatt, til þess að allir sjeu með, og jeg sje alls ekki eftir því, þó að Revkjavíkurbær missi í við þetta og verði af þessu fje, sem bærinn hefir fengið alveg að ófyrirsynju og farið illa með. Það hefir verið lagður skattur á íþróttamenn með rangindum, svo að Alþingi varð að taka í taumana, til þess að varðveita þá fyrir ásælni bæjarstjórnar. Svo vita menn og, að hún tekur árlega um 2 milj. kr. úr vösum bæjarbúa. Hlýtur bærinn því að eiga einhversstaðar fje á vöxtum eða í sjóði, þar sem hann getur ekki hafa eytt þessu öllu. Nú tekur t. d. bærinn mörg hundruð krónur árlega fyrir að hirða sorp og ösku frá húsunum. Þetta gat maður áður fengið gert fyrir fáa aura á mánuði; en nú hefir þrifnaður allur stórum versnað, síðan bærinn tók þetta í sínar hendur.

Jeg veit eigi, hvernig bæjarstjórn Reykjavíkur getur dirfst að senda Alþingi hnútur og skeyti, þar sem það er vitanlegt, að bæjarstjórn Reykjavíkur er hin alversta stjórn í heimi. Hún gat t. d. alls ekki sett reglur um húsnæði í Reykjavík, sem Alþingi þó trúði henni fyrir. Barnahæli hjer yrði aðeins til ills eins; börnin yrðu drepin úr kvöl og volæði, og svo er um allar framkvæmdir þessarar bæjarstjórnar. Hún skyldi því ekki vera að seilast til þess fjár, sem hún á engar rjettmætar kröfur til, og kann heldur ekki með að fara.