30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1631 í B-deild Alþingistíðinda. (1395)

106. mál, sandgræðsla

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Jeg verð að kannast við, að þetta mál var nokkuð óþekt í landbúnaðarnefnd, þegar það kom þar fyrst fyrir. Enginn nefndarmanna er vel kunnugur í þeim hjeruðum, sem sandgræðsla er helst stunduð í. Jeg geri ráð fyrir, að svo sje ef til vill ástatt um fleiri deildarmenn, að þeir sjeu málinu lítt kunnugir, og vil jeg því fara lauslega yfir það, sem skiftir mestu máli í sambandi við frv.

Svo sem kunnugt er, hefir sandgræðsla hjer á landi ekki verið reynd að marki fyr en 15 síðustu árin. Þessi 15 ár hefir sami maðurinn stýrt þessum tilraunum, fyrst undir yfirstjórn skógræktarstjóra, til 1915, og síðan undir stjórn Búnaðarfjelags Íslands. Það er einnig kunnugt, að fje hefir verið veitt árlega í fjárlögunum til þessara framkvæmda, og eftir þeim upplýsingum, sem nefndin hefir afl að sjer, hefir fje þessu verið vel varið. Aðalframkvæmdirnar hafa verið í Árnes- og Rangárvallasýslum. sjerstaklega víða í Rangárvallasýslu, og einkum á Skeiðum, Eyrarbakka og Kaldaðarnesi í Árnessýslu. Enn fremur hafa tilraunir verið gerðar í Norður-Ísafjarðarsýslu, nálægt Bolungarvík. Reynslan hefir sýnt, að þessar tilraunir bera víða góðan árangur og gefur von um, að vel sje þess vert að halda tilraununum áfram. En sem við má búast, hafa komið fyrir nokkrar hindranir gegn því, að æskilegum árangri yrði náð og komið yrði í veg fyrir, að tjón hlytist af, þar sem sandfok og uppblástur er í byrjun. Þessi vandkvæði eru aðallega fólgin í því, að landeigendur hafa verið tregir á að leggja fram fje til þess að verjast voðanum.

Jeg skal einnig geta þess, að maður sá, sem um 15 ár hefir stýrt þessu verki, er maður með sjerþekkingu í þessum efnum. Gunnlaugur kennari Kristmundsson í Hafnarfirði. Hann er áhugasamur mjög og líklegur til að koma miklu til leiðar í þessu efni framvegis, svo sem hingað til.

Þá skal jeg snúa mjer að frv. sjálfu, og má fara fljótt yfir sögu. Það gerir aðeins fáar breytingar á núgildandi lögum, 2 aðalbreytingar og nokkrar smávægilegar orðabreytingar. Fyrri breytingin er fólgin í 4. gr. frv., þar sem ákveðið er, að kostnaður við sandgræðsluframkvæmdir skuli greiddur að helmingi úr ríkissjóði, en að helmingi af landeiganda, en í lögunum er ákveðið, að ríkissjóður greiði 3/4 af þeim kostnaði, sem er umfram það, sem landeigandi leggur fram. Í framkvæmdinni hefir þetta orðið eins og kveðið er á í frv., og má því segja, að hjer sje ekki gerð efnisbreyting, heldur sje aðeins orðalaginu breytt í samræmi við það, sem lögin hafa verið framkvæmd. Því það er svo í raun og veru, að þetta er ekki breyting á skipulagi, þótt það sje breyting á lögunum.

Hin aðalbreytingin er fólgin í 5. og 6. gr. Það er ákvæði um það, að heimila ríkisstjórninni að taka eignarnámi land manna, ef nauðsyn krefur, til að girða fyrir uppblástur og sandfok. Er þetta heimilað er svo stendur á, að hlutaðeigandi landeigendur vilja ekki leggja neitt af mörkum til að fyrirbyggja þessi landspell. Skal stjórninni þá heimilt að taka landið án vilja þeirra og gera þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar þykja, á kostnað ríkisins. Hefir verið skýrt frá því í nál., hver nauðsyn beri til þessa, og svo einnig í greinargerð fyrir frv. Hefi jeg og aðrir nefndarmenn nýlega átt tal við mann, sem haft hefir sandgræðslu með höndum, og kveður hann þessi ákvæði nauðsynleg í lögunum, til þess að fyrirbyggja, að einstakir menn geti að engu gert nauðsynlegar jarðabætur og sett slíkum framkvæmdum stólinn fyrir dyrnar. Jeg skal t. d. nefna, að í Holtunum er um eitt slíkt landsvæði að ræða, sem heitir Kambsheiði. Þeir landeigendur, einn eða fleiri, sem búa í fjarlægð, hafa leigt landið og vilja ekki sinna neinum sandfoksvörnum. En hins vegar er nauðsynlegt, vegna annara jarða, að hafast þarna eitthvað að. Sama er að segja um ýmsar landspildur uppi í Landsveitinni og víðar.

Auk þessara breytinga eru svo auðvitað nokkrar breytingar í sambandi við þær breytingar á núgildandi lögum, sem þessar aðalbreytingar hafa í för með sjer. En þær breytingar eru sjálfsagðar, ef hinar breytingarnar verða samþyktar.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Vænti jeg þess, eftir að nefndin hefir athugað málið rækilega og komist að þessari niðurstöðu, að háttv. deild fallist á frv. og samþykki það með þeim breytingum, sem nefndin hefir gert á því. Þessar smærri breytingar eru svo lítilvægar, og aðallega orðabreytingar, að ekki er nein ástæða til að tala fyrir þeim sjerstaklega. Það er engin þeirra efnisbreyting, nema ef vera skyldi ein setning í 1. brtt., við 4. gr., þar sem ákveðið er, að ríkissjóðurinn veiti ekki lán til að greiða þann kostnað, sem landeigandi á að leggja fram.

Vil jeg svo eindregið mæla með því, að málið fái greiða afgreiðslu í háttv. deild, svo að það megi afgreiðast sem lög frá þessu þingi.

*Þm. (GunnS) hefur ekki yfirlesið ræður sínar í þessu máli.