05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1430)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Jón Baldvinsson:

Jeg geri ráð fyrir, að traust stjórnarinnar sje svo mikið, að frv. þetta nái fram að ganga. En þá langar mig til að spyrja: Á Landsbankinn að vera háður samskonar eftirliti? Jeg veit ekki, hvernig þessu er háttað annarsstaðar, en eðlilegt þætti mjer, að þjóðbankinn væri ekki settur á borð við stofnanir einstakra manna.

Annað, sem jeg vildi fá vitneskju um, er það, hvort fulltrygt sje, að slíkur maður sem þessi fái aðgang að öllum skjölum og skilríkjum þeirra banka, sem hann á að rannsaka. Það gæti átt sjer stað, að einhver stofnunin neitaði slíku, og er þá tryggara, að um þetta sje ákvæði í sjálfum lögunum.