11.05.1923
Efri deild: 59. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (1449)

151. mál, eftirlitsmaður með bönkum og sparisjóðum

Forsætisráðherra (SE):

Frv. þetta er ekki komið fram vegna sparisjóðsins á Eyrarbakka, enda heimila lög frá 1915 stjórninni að grípa í taumana og hefja rannsókn, þegar sparisjóðir eru komnir á það stig, sem þessi er á.

Sú mótbára, að sami maðurinn geti ekki litið eftir hvorutveggja, bönkunum og sparisjóðum, vegna ferðalaganna, getur ekki komið til greina. Hann mundi skifta sparisjóðunum niður og koma til þeirra við og við, en ekki allra sama árið. Fyrir það verða ferðalögin ekki svo ýkjamikil. Það er rjett, að stjórnin getur látið rannsaka báða bankana, ef hún sæi þess þörf. En það má nærri geta, að stjórnin hefði aldrei þá sjerþekkingu í þessum efnum, sem væntanlegur eftirlitsmaður hlýtur að fá, og sem einmitt er svo nauðsynleg.

Það er mikið rjett, að hjer er verið að stofna nýtt embætti. En launin eiga hlutaðeigandi bankar og sparisjóðir að greiða í sameiningu, og skiftir það litlu máli fyrir hvern, í samanburði við gagn það, sem þeir geta haft af slíku eftirliti. Mjer finst mál þetta svo einfalt, að ekkert sje því til fyrirstöðu, að það fái fram að ganga á þessu þingi.