21.03.1923
Efri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1718 í B-deild Alþingistíðinda. (1564)

100. mál, réttindi og skyldur hjóna

Forsætisráðherra (SE):

Þetta frv. var af fyrverandi stjórn lagt fyrir þessa hv. deild árið 1922, og var því þá vísað til allshn. Hún gat ekki gengið frá því að fullu þá, enda þótti eigi ástæða til að hraða framgangi málsins svo mjög. Löggjöf um þessi efni hefir verið rannsökuð af nefndum á Norðurlöndum og fengið mikinn undirbúning. Með þessu frv. verið að upphefja þann mismun, sem verið hefir á fjárforræði hjónanna, og þykir það því vera í fullu samræmi við jafnrjettishugsjónina milli karla og kvenna, en vitanlega eru sumir þeir hnútar, sem hjer eru leystir, allörðugir, þar sem taka verður tillit til beggja hjónanna og til þriðja manns. Frv. er samið af hæstarjettardómara Lárusi H. Bjarnason, og hefir því fengið góðan undirbúning. Jeg leyfi mjer að stinga upp á, að því verði vísað til allshn.