17.03.1923
Neðri deild: 22. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

11. mál, fátækralög

Jón Baldvinsson:

Jeg vil ekki láta þetta frv. fara svo fram hjá til 2. umr., að fara ekki nokkrum orðum um það ásamt breytingum þeim, er gerðar hafa verið á því í háttv. efri deild. Enda þótt svo sje, að jeg telji ekki frv. fullnægjandi eins og það kom frá hendi hæstv. stjórnar og að jeg álíti, að hún hafi ekki gengið eins langt í breytingum sínum sem þingsályktunin frá 1917 gaf tilefni til, þá tel ieg þó breytingarnar til bóta, svo langt sem þær ná. En eins og frv. kemur nú frá háttv. Ed., með breytingum frá allsherjarnefnd þeirrar deildar, þá tel jeg ekkert nýtilegt í því lengur. En í trausti þess, að þessum breytingum verði hrundið hjer, vil jeg ekki setja mig á móti því, að frv. gangi til 2. umr. Háttv. allsherjarnefnd Ed. gerir grein fyrir í nefndaráliti sínu við frv., á þskj. 61. ástæðum þeim, er til þess liggja, að hún feldi niður rjettarbætur þær, er í stjfrv. voru. Þessar ástæður eru svo einkennilegar og fáránlegar, að þeim má ekki vera ómótmælt. Aðalrökin fyrir niðurskurðinum eru þau, að rjettarbæturnar nái eigi nógu langt, og því beri að láta alt sitja í sama horfinu sem áður, uns hægt sje að taka öll fátækralögin til gagngerðrar breytingar, sem hún huggar sig þó við, að ekki verði gert í fljótu bragði. Má af þessu glögt sjá, hvað þeir vilja, og er merkilegt, að þeir skuli bjóða þinginu þessi rök sín sem góða og gilda vöru, því vita máttu þeir, að hinn sanni tilgangur þeirra skín þar alstaðar í gegn.

Sem dæmi upp á rök þeirra má nefna það, að þeir vilja eigi leyfa mönnum, er leita sveitarstyrks sökum veikinda, að halda fullum rjettindum sínum, sökum þess, að þá ættu menn, er leita sveitarstyrks vegna ómegðar, einnig að halda þeim. Þá telur nefndin eigi rjett að láta þá menn, er leita styrks vegna elli, halda rjettindum sínum, því ellistyrktarsjóðirnir geti sjeð fyrir þeim. Eins getur háttv. nefnd ekki fallist á 1. gr. frv., því þar er einungis gert ráð fyrir styrkveitingu sökum ómegðar, en háttv. nefnd telur eins mikla þörf fyrir atvinnulausa menn að hafa sömu rjettindi. Þannig reynir háttv. nefnd að koma fram með eintómar manngæskuástæður fyrir þessum brtt. sínum, en tekst eigi betur en það, að tilgangur hennar, að standa á móti umbótum á þessu sviði, skín alstaðar í gegn. Jeg vil því vona, að þessi háttv. deild geri gagngerðar breytingar á frv. hv. efri deildar, því ef svo verður eigi gert, væri betra að fella frv. alveg, því eins og það er nú, er það sáralítils virði.