01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

11. mál, fátækralög

Jón Baldvinsson:

Þegar ríkisstjórnin lagði þetta frv. fyrir þingið, var hún að framfylgja þjóðarviljanum og þingsins, sem oftar en einu sinni hefir komið fram um þetta. Að minsta kosti tvisvar á árunum 1917–21 var samþykt áskorun til stjórnarinnar um þetta í Nd. Alþingis, og því tel jeg það misráðið af hæstv. stjórn, að leggja þetta frv. fram í Ed.

Nú lítur út fyrir, að hv. Ed. hafi ekki verið samþykk ályktunum þessarar deildar. Það sýna ljóslega breytingar hennar á frv. stjórnarinnar. Þegar jeg nú ber fram brtt. mínar á þskj. 457, sem háttv. þm. Str. segir, að eigi að samþykkjast án atkvgr., geri jeg það til að framfylgja kröfum Nd. Það er því óþarft að mæla langt mál með þessum brtt. mínum, og jeg á bágt með að skilja þá hv. þm., sem halda því fram, að enginn tími sje til að afgreiða þetta mál. Þetta er aðalmótbáran hjá háttv. 1. þm. Rang. (GunnS), og eins hitt, að Ed. muni þá ef til vill fella brtt. Jæja; þótt svo færi, þá er alveg víst, að meiri hl. yrði með þessum brtt. mínum í Sþ.

Jeg hefi farið skemra í brtt. en jeg hefði á kosið, en það, að jeg stilti svo í hóf, var af því, að jeg þóttist viss um það, að háttv. Nd. mundi samþykkja þessar brtt. í e. hlj. eins og þær eru nú, og því vildi jeg ekki fara lengra að svo stöddu, þar sem jeg vildi ekki eiga á hættu, að þær vektu mótspyrnu. Þess vegna voru það aðeins þessi tvö atriði, sem jeg tók til meðferðar, að fjölskyldumenn eða þeir, sem vegna slysa og óhappa hefðu orðið að leita styrks, yrðu ekki sviftir rjettindum. Alþingi hefir viðurkent, að þetta er ranglæti, eins og nú er farið með þessa menn, og jeg efast því ekki um, að það muni vilja bæta þetta ranglæti. Þá ætti enn síður hitt atriðið að orka nokkurs tvímælis, að það sje rangt, að styrkþurfar, eldri en 60 ára, teljist til sveitarlima, enda veit jeg og, að allflestir háttv. þm. samþykkja þetta í hjarta sínu, hvað sem höndin gerir. Jeg hefi í þessum brtt. lítið brugðið út frá frv. hæstv. stjórnar; þar er svo ákveðið, að þeir, sem vegna slysa hafa orðið ófærir til vinnu um tveggja mánaða skeið, skuli, þó þeir þurfi styrks við, eigi sviftir rjettindum. Jeg hefi aðeins breytt frá 2 mán. til eins mánaðar, því mjer þótti 2 mánuðir of langur tími. Þá er 2. liðurinn, að styrkur til þeirra, sem eldri eru en 60 ára, verði eigi talinn sveitar styrkur; og þar hefi jeg farið eftir því, sem áður hefir verið viðurkent að væri rjett. t. d. í ellistyrkslögunum, og því set jeg þau sömu aldurstakmörk hjer og miðað er við í þeim.

Það hafa ekki komið verulegar mótbárur enn móti þessum brtt. mínum, nema helst frá háttv. 1. þm. Rang. (GunnS), sem er svo hræddur við Ed., og svo verð jeg að segja þeim háttv. þm. það, að þótt það sje í sjálfu sjer gott að stytta sveitfestistímann, þá álít jeg það atriði ekki svo mikilsvert, að vert sje að samþykkja frv., ef engar aðrar umbætur fást Jeg get skilið ástæður þessa háttv. þm. t. d. að aðstreymi úr sveitum til sjávarhjeraðanna geti valdið sveitarþyngslum hjá sveitunum. Og jeg álít það alls ekki rjett, að hreppur beri þyngsli af manni, sem allan sinn starfsaldur hefir dvalið annarsstaðar. En sem sagt, þær ástæður eru þó ekki svo mikilsverðar, að vert sje að leggja kapp á breytingarnar á lögunum þeirra vegna. Þá eru meiri rjettarbætur, sem felast í brtt. háttv. þm. Str. (MP); það eru tillögur um persónurjett manna, og eiga því meiri rjett á sjer en sveitfestistíminn, sem hjer hefir verið lögð mikil áhersla á og er aðeins miðaður við hag einstakra kjöidæma. Jeg þykist fullviss um, að háttv. deild sýni staðfestu sína við hinar fyrri ályktanir sínar, með því að samþykkja allar okkar tillögur, — mínar og hv. þm. Str. (MP), og læt jeg svo útrætt um þetta að sinni.