24.03.1923
Neðri deild: 28. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Þórarinn Jónsson:

Mjer skildist svo, sem háttv. þm. Ak. (MK) kæmist að þeirri niðurstöðu, að þetta frv. myndi lækka tekju- og eignarskattinn um 200 þúsund kr., og mun það vera það minsta, sem hv. þm. hefir treyst sjer til að nefna. Jeg býst við, að það verði miklu meira. Þá gat hann um það, að tvö önnur frv. væru á ferðinni, og að aka mætti þar seglum eftir því sem byrinn bljesi í þessu máli. Annað er vörutollsfrv., og get jeg vel skilið það, að þar sje nokkur tekjuvon. En þar sem ein ástæðan hjá fjárhagsnefnd fyrir því frv. var sú, að móti þeim tekjuauka ætti að draga úr eða fella niður útflutningsgjaldið, þá sje jeg ekki, að þær tekjur geti neitt bætt upp rýrnunina á þessu skattafrv. Annars er hv. þm. (MK) líklega nú búinn að kasta þeirri ástæðu fyrir borð, og er það ekki fyr en búast mátti við. — Að lokum sagði háttv. þm., að ilt væri eftir allan barninginn, ef ekkert yrði úr málinu. Það er satt, — ilt er það. En eitt er þó verra. Það, að eitthvað verði úr því, sem er verra en ekkert.