03.04.1923
Efri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1877 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

9. mál, vatnalög

Einar Árnason:

Aðeins örfáar athugasemdir. Jeg hafði strikað við einstaka greinar í frv. þessu, en sumt af því, sem jeg hafði hugsað mjer að minnast á, hefir þegar komið fram við þessar umræður, svo jeg þarf ekki að fara út í nema fá atriði. Mjer virðast brtt nefndarinnar flestar eða allar til bóta, en þó hygg jeg, að henni hafi sjest yfir á stöku stað að nema burt óþarfa endurtekningar í frv. Jeg hafði hugsað mjer að gera aths. við 4. gr., en hæstv. atvrh. (KIJ) hefir þegar gert það, og þess vegna get jeg leitt það hjá mjer.

Þá kem jeg að 7. gr. lið c. Jeg skil hann ekki, ef ekki er formgalli á honum eins og hann er í frv. Mjer skilst, að c-liðurinn eigi ekki að vera lengri en „að veita jarðvatni úr landi sínu á annara land.“ Það, sem eftir er, skoða jeg sem almenna umsögn um alla liðina, a, b og c. Vil jeg fá að vita hjá háttv. nefnd, hvort þetta er misskilningur hjá mjer, því ef svo er ekki, þá þarf að breyta þessu.

Þá er 9. gr. Í henni er talið upp, hvað manni er heimilt að gera við vatn. En greinin er óþörf, vegna þess að í 7. gr. er búið að segja. hvað sje óheimilt. Rjettara tel jeg að telja ekki upp nema annaðhvort, því ef hvorttveggja er tekið fram, geta auðveldlega fallið úr einhver atriði, sem svo síðar meir gætu valdið ágreiningi. 9. gr. ætti því að falla burt.

Þá er 65. gr. Jeg er sammála hæstv. atvrh. (KIJ), að sú grein ætti að falla burt. Það er óeðlilegt, að hægt sje að taka lögnámi rjettindi til handa einstaklingum; annað mál er, þegar ríkið á í hlut. Með þessu er gengið of nærri rjetti einstaklingsins.

Þá er 67. gr. Hún er óaðgengileg í frv., en með breytingum nefndarinnar er hún kannske ekki til skaða, en óþörf er hún og rjettast hygg jeg væri að fella hana.

Um 84. gr. hefir hæstv. atvrh. talað. Í henni er ekkert nýtt, og mætti hún því að skaðlausu missa sig.

Þá er 123. gr. Þar stendur í 2. lið: „Öllum er veiði heimil“ o. s. frv. Það má vera, að það sje vanþekking minni að kenna, að jeg veit ekki vel, hvað við er átt. Jeg álít, að ekki geti hjer verið um aðra menn að ræða en íslenska ríkisborgara. Og ef svo er, þá er orðalagið ekki nógu tryggilegt. Jeg óska upplýsinga um, hvort einnig sje átt við útlendinga.

Þá er 126. gr. Þar hefir allshn. bætt við um veiðirjett í almenningi og tekið fram, hverjir eigi hann. En mjer finst vanta, að trygður sje rjettur þeirra, sem ekki eiga land að almenningnum. Þeir sem land eiga að almenningnum, gætu bannað hinum uppsátur, og þar með komið í veg fyrir, að þeir gætu hagnýtt sjer veiðina. Mætti laga þetta við 3. umr.

Þá eru talin helstu atriðin, sem jeg vildi hafa tekið fram.