03.04.1923
Efri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1879 í B-deild Alþingistíðinda. (1771)

9. mál, vatnalög

Frsm. (Guðmundur Guðfinnsson):

Jeg þarf ekki miklu við að bæta, því að litlu er að svara. Jeg býst við, að nefndin geti ekki fallist á, að engin ástæða sje að veita leiguliðum þann rjett, sem getið er um í 101. gr. Það er hart að meina leiguliða að taka þátt í orkunýtingu. Nefndinni þótti hæfilega í farið, ef hennar brtt. yrði samþykt.

Hæstv. atvrh. (KIJ) þótti undarlegt, að nefndin skyldi ekki geta fallist á 3. brtt. stjórnarinnar. En það var af þeim ástæðum, að nefndin vildi sem mest hliðra sjer hjá því að komast inn á eignarrjettarspursmálið, en þótti þar óþarflega langt gengið, að tala um eignarrjett á vatni. Þá mintust þeir hæstv. atvrh. (KIJ) og hv. 2. þm. Eyf. (EÁ) á 65. gr. og þótti langt gengið, að heimila einstöku mönnum að taka vatn lögnámi. En það er áskilið með leyfi ráðherra, og kemur þá nokkuð í sama stað niður og þegar stjórnin getur gert það. Þá leitaði háttv. 2. þm. Eyf. upplýsinga um 7. gr. Jeg get ekki svarað því nú, en nefndin mun taka það til athugunar. 84. gr. mætti kanske falla í burt, af því að ekkert nýtt er í henni, en hún er líka meinlaus. Þá er 123. gr. Það gæti virst sem greinin væri nokkuð ógætilega orðuð, en jeg get ekki skilið, að útlendingum væri heimilaður rjettur til veiða uppi í landi. Fleira var það víst ekki sem jeg þurfti að athuga.