02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (1846)

124. mál, friðun á laxi

Pjetur Ottesen:

Jeg greiddi atkv. með frv. til 3. umræðu, og það sjerstaklega vegna þess, að felt var burt úr frv. undanþáguákvæðið að því er snertir þær ár, sem falla í Ölfusá.

Því hefir verið lýst yfir, og færð rök að því, að svo hagaði til með Ölfusá, að það mundi ekki hafa mikil áhrif á laxgöngu í henni, þótt undanþágan væri veitt með hana. Vitanlega hefir það þó nokkur áhrif, því á þessum tíma mundi altaf meiri veiði verða, ef netin mættu altaf liggja, en ef þau eru tekin upp, eins og nú er ákveðið, 36 stundir í viku, og mundi þetta valda því, að laxganga upp eftir ánum yrði þó altaf nokkru minni en ella.

En nú er komin brtt. frá háttv. 1. þm. Árn. (EE), að þessi upphaflegu ákvæði sjeu tekin upp aftur, og kemur þar fram, að sá ótti, sem fram hefir kornið, að fleiri sigldu í kjölfarið, er rjettmætur. Á nú undanþágan, eins og brtt. háttv. 1. þm. Árn. er orðuð, ekki aðeins að gilda um þær ár, sem renna í Ölfusá, heldur einnig um allar veiðiár í Árnessýslu. Mjer er nú ekki svo kunnugt um það, hvort fleiri laxveiðiár eru í Árnessýslu en þær, sem renna í Ölfusá. En það er þó altaf helmingurinn af Þjórsá, sem tilheyrir sýslunni, Getur komið fram hið mesta ósamræmi í því, þar sem laxveiðiár aðskilja sýslur, eins og víða er, ef veita skal annari sýslunni svona lagaða undanþágu, en hinni ekki. Þessi krafa, sem hjer kemur frá háttv. 1. þm. Árn. (EE), gefur fulla ástæðu til þess að ætla, að slíkar kröfur komi víðar frá. Og það verður að gjalda varhuga við því að leiða inn ákvæði, sem veita þeim, sem við árósana búa, alla hagsmunina við laxveiði í ánum. Þetta er því allvarhugavert mál, og getur það haft alvarlegar afleiðingar að ganga inn á þessa braut. Fyrir því vil jeg ekki ganga inn á það að veita þessi undanþágurjettindi, og það hlýtur að vera gert með hagsmuni þeirra manna einna fyrir augum, sem búa við ósa þeirra laxveiðaáa, sem í Ölfusá falla, að háttv. 1. þm. Árn. flytur þessa brtt. Hinum, sem ofar búa við árnar, er þessi undanþága vitanlega til tjóns.

Það er því af þessum ótta, að samskonar kröfur um undanþágur komi víðar að, að jeg get ekki fylgt frv. lengra, og er það sökum framkomu brtt. hv. 1. þm. Árn. (EE); með henni er sýnt, hvað á eftir muni koma. En jafnvel þótt hún yrði ekki samþykt, eða þótt hún yrði tekin aftur, þá mun jeg þó ekki geta fylgt frv.